Meira gas kemur úr þessu eldgosi en því sem var í fyrra, segir Elín Björk Jónasdóttir, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands. Hún tók til máls á fundi Almannavarna í dag. Það sé því auðveldara að finna fyrir einkennum komi maður of nálægt gosinu.

„Mjög mikilvægt að þau sem ætla að vera eitthvað þarna á ferðinn að þau fari ekki ofan í dældir og sérstaklega ekki ofan í dalinn, þar sem að sprungan er opin, heldur haldi sig uppi á þessum hnjúkum sem eru þarna í kring og eru ágætis útsýnispallar,“ segir Elín Björk.

Hún segir að það sé ekki enn komið net gasmæla á svæðinu en að þeir verði settir upp á næstu dögum. Þá verði hægt að skoða í rauntíma hvernig gasmengunin er og hversu hár styrkur brennisteinsdíoxíðs er og annarra eldfjallagasa.

Ekki hætta á gasmengun í byggð eins og staðan er núna

Eins og staðan er núna sé ekki hætta á gasmengun í byggð. Áttin sé hánorðan og strókurinn leggur til suðurs, ekki yfir neina byggð.

„Mælar Umhverfisstofnunar eru enn þá í þessum byggðarlögum þarna suður með sjó og það er hægt að fylgjast með loftgæðum á loftgaedi.is.“

Vindáttin eigi eftir að breytast um helgina og þá þurfi mögulega að fara að skoða hvernig gasið leggst yfir nærliggjandi byggðir.