Í myndbandinu hér að ofan má sjá hraunið flæða um Meradali skömmu eftir að gos hófst í dag. Freysteinn Sigmundsson, jarðeðlisfræðingur, sagði í viðtali við fréttastofu í gær að kvikurennsli úr þessu gosi samsvari um tíföldu rennsli Elliðaáa.

Freysteinn sagði í gær að innstreymishraði væri meiri í þessu gosi en því síðasta. Samhæfingarmiðstöð Almannavarna í Skógarhlíð var virkjuð þegar gosið hófst og búið að færa almannavarnarstig upp á neyðarstig. Þyrla Landhelgisgæslunnar kannaði aðstæður fljótlega eftir að gos hófst. Jón Svanberg hjá almannavörnum sagði við fréttastofu fyrr í dag að miðað við það sem sést á vefmyndavélum og fyrstu upplýsingum sé gosið á eins góðum stað og það geti verið, í það minnsta enn sem komið er.

Gossvæðið er ekki lokað almenningi en Sólberg Svanur Albertsson, yfirmaður hjá almannavörnum, biður fólk að hinkra aðeins á meðan verið er að leggja mat á aðstæður.