Melkorka Gunborg Briansdóttir, bókmenntarýnir Tengivagnsins, fjallaði um bókina Fagri heimur, hvar ert þú, eftir írsku skáldkonuna Sally Rooney.


Melkorka Gunborg Briansdóttir skrifar: 

„Á brautarpalli á lestarstöð, síðla morguns snemma í júní: tvær konur faðmast eftir nokkurra mánaða aðskilnað. […] Voru þær meðvitaðar um það, svona niðursokknar í faðmlagið, að það var eitthvað örlítið fáránlegt við þessa mynd, eitthvað næstum hlægilegt, þegar einhver nálægt þeim hnerraði ógurlega í krumpaða bréfþurrku, þegar óhrein plastflaska þeyttist eftir brautarpallinum í golunni, þegar rafstýrt auglýsingaskilti á stöðvarveggnum skipti úr hárvöru- yfir í bíla-tryggingaauglýsingu, þegar lífið í öllum sínum hversdagsleika og jafnvel óaðlaðandi lágkúru tróð sér að allt í kringum þær? Eða voru þær á þessu augnabliki óafvitandi, eða jafnvel eitthvað meira en óafvitandi – voru þær einhvern veginn ónæmar fyrir og ósnertar af lágkúru og ljótleika og sáu eitt augnablik ofan í eitthvað dýpra, eitthvað sem var falið undir yfirborði lífsins, ekki óraunveruleika heldur falinn raunveruleika: alltumlykjandi og ævarandi tilvist hins fagra heims?“

Fagri heimur, hvar ert þú? er þriðja skáldsaga hinnar geysivinsælu írsku skáldkonu Sally Rooney, en hún kom út fyrr á árinu hjá bókaútgáfunni Benedikt í íslenskri þýðingu Ingunnar Snædal. Fyrri bækur Sally Rooney, Conversations with Friends og Normal People, hafa einnig komið út í íslenskri þýðingu sem Okkar á milli og Eins og fólk er flest, en hin síðarnefnda var gerð að vinsælli sjónvarpsþáttaröð á streymisveitunni Hulu árið 2020.

Fagri heimur, hvar ert þú? fjallar um fjórar ungar manneskjur, þau Alice, Eileen, Felix og Simon. Þau eru öll um þrítugt, komin út á vinnumarkaðinn og farin að lifa sjálfstæðu lífi. Eiginlegar aðalpersónur bókarinnar eru þó vinkonurnar Alice og Eileen, sem kynntust á háskólaárunum. Samband þeirra er í forgrunni og frásögnin flakkar á milli þeirra tveggja til skiptis.

Alice er rithöfundur sem hefur gefið út tvær vinsælar skáldsögur og öðlast heimsfrægð. Líkindin við stöðu Rooney sjálfrar eru hér nokkuð augljós, en þó margir hafi viljað bendla persónu Alice við höfundinn neitar Rooney að hún vinni með eigin reynslu á beinan hátt í verkum sínum. Þegar sagan hefst er Alice nýflutt í írskan smábæ eftir að hafa verið vistuð á geðdeild í nokkrar vikur vegna andlegra veikinda. Eileen býr hins vegar í Dublin, vinnur sem aðstoðarritstjóri bókmenntatímarits og ber greinilegar tilfinningar til Simon, æskuvinar síns sem hún ólst upp með og er enn í nánu sambandi við. Á meðan Eileen og Simon dragast saman og í sundur á víxl kynnist Alice Felix, ungum manni sem vinnur í vöruskemmu í smábænum.

Titill bókarinnar er sóttur orðrétt í ljóð eftir Friedrich Schiller, en persónur bókarinnar eru einmitt mjög að leita að þessum fagra heimi, hvort hann leynist undir yfirborðinu eða sé yfirleitt mögulegur í nútíma sem einkennist af ójöfnuði og mengun; heimi á heljarþröm.

Frásagnarmáti bókarinnar er áhugaverður. Í raun er frásögnin tvíþætt: Annars vegar fylgjumst við með daglegu lífi Alice og Eileen utan frá í þriðju persónu og hins vegar í fyrstu persónu í gegnum tölvupóstasamskipti. Þessum tveimur sjónarhornum er skipt nokkurn veginn jafnt.

Í þeim hluta bókarinnar þar sem frásögnin er í þriðju persónu fáum við sjaldan að sjá inn í hugarheim persónanna, heldur fylgjumst frekar með þeim eins og fluga á vegg. Hér er frásögnin frekar ópersónuleg og stíllinn á köflum eins og persónurnar séu ókunnugar jafnvel þó búið sé að kynna þær. Þessi frásagnarstíll er bæði undarlegur og áhugaverður, forvitni lesandans er vakin þar sem persónurnar ljúkast ekki strax upp fyrir honum.

Inn á milli þysjar frásögnin út að hætti kvikmyndarinnar, stundum út fyrir sjónsvið persónanna. Raunar flæðir þessi helmingur bókarinnar að mörgu leyti eins og kvikmyndahandrit, þar sem hreyfingum og gjörðum er lýst í smáatriðum, og jafnvel því sem persónur sjá: „Fylgjum augnaráði hennar núna og sjáum að dyrnar að svefnherberginu eru opnar […].“ Fagri heimur hefur af mörgum verið gagnrýnd fyrir þetta frásagnareinkenni, þar sem sumum þykja lýsingarnar á hversdagslegum athöfnum of ítarlegar og langar. Að mínu mati kemur hversdagsleikinn hins vegar ekki að sök heldur er hann einmitt heillandi, sannur og kunnuglegur. Stíllinn er fágaður og flæðandi, og þó lýsingarnar séu ef til vill óspennandi á yfirborðinu er sterkt að Rooney hörfar ekki undan hversdagsleikanum heldur dregur hann fram.

Hinn helmingur bókarinnar samanstendur af tölvupóstasamskiptum Eileen og Alice. Tölvupóstarnir eru allt annað en í skeytastíl, heldur flæða frekar eins og ritgerðir eða sendibréf að hætti bréfaskáldsögunnar. Þar velta vinkonurnar upp ýmsum hugðarefnum sínum og eiga heimspekilegar samræður um loftslagsmál, hnignun siðmenningarinnar, bókmenntaheiminn, nútímaskáldsöguna, siðferði, fegurð, ljótleika, Guð, ást og vináttu. Það er helst í tölvupóstunum sem lesandinn fær að kynnast hugsunum Alice og Eileen milliliðalaust, þar sem þær tala óhindrað í fyrstu persónu. Samræður þeirra eru gjarnan háfleygar, sem vegur skemmtilega upp á móti hversdagsleikanum í öðrum köflum bókarinnar. Þannig vaska persónurnar í Fagri heimur upp og kaupa epli úti í búð – en ræða líka um hrun bronsaldarinnar. Þó viss bölsýni einkenni marga tölvupóstana eru þeir virkilega vel skrifaðir og innihalda áhugaverðar hugmyndir sem fá lesandann til að staldra við og spegla eigin reynslu og skoðanir.

„Ég hugsa um tuttugustu öldina sem eina langa spurningu og á endanum svöruðum við henni vitlaust.“

Í tölvupóstunum gagnrýnir Alice hégómagirnd bókmenntaheimsins og ræðir stöðu skáldsögunnar í nútímanum á hátt sem má auðveldlega túlka sem kaldhæðnislegan og sjálfsvísandi. Í gegnum Alice finnur Rooney ef til vill vettvang til að tjá eigin hugðarefni og áhyggjur, t.d. fjarlægð rithöfunda við raunveruleikann, fátækt meirihluta mannkynsins, rányrkju og hamfarahlýnun: „Hætta aðalpersónurnar saman eða ekki? Hvaða máli skiptir það í þessum heimi?“

Með tölvupóstunum, þar sem Eileen og Alice segja hvor annarri frá lífi sínu, tekst Sally Rooney á næman hátt að sýna hvernig við sköpum okkur ákveðna ímynd í samskiptum við annað fólk: Við segjum ákveðnar sögur af okkur sjálfum og útskýrum okkur fyrir öðrum. Á áhugaverðan hátt passa sjálfsmyndir Eileen og Alice ekki alltaf við lýsingar þeirra á hvor annarri. Frásagnir þeirra af lífi sínu ríma heldur ekki alltaf við þann hluta bókarinnar sem er sagður í þriðju persónu, sem kemur lesandanum á óvart og fær hann stöðugt til að upplifa söguna á nýjan hátt.

Menntun og stéttarstaða Felix er ólík hinna persónanna þriggja, nokkuð sem er áberandi þema í fleiri verkum Sally Rooney. Þegar sígur á seinni hluta bókarinnar verður persóna Felix þó veikasti hlekkur hennar og sífellt erfiðara að skilja hvað Alice sér við hann. Á milli þeirra er óþægileg valdabarátta, hann talar niður til hennar, gerir lítið úr starfi hennar sem rithöfundur, reynir við annað fólk og er dónalegur við vini hennar. Hann er þó hvorki sérstaklega gagnrýndur fyrir hegðun sína né er rót hennar könnuð nánar.

Kynlífssenur bókarinnar eru líka of fyrirferðarmiklar þó þær séu vel skrifaðar. Persónurnar fjórar eiga það allar sameiginlegt að eiga í brotnum eða flóknum samskiptum við fjölskyldu sína, nokkuð sem hefði verið áhugavert að skoða nánar í stað endurtekinna kynlífssena. Einstaka sinnum var þýðingin ekki nógu talmálsleg til að vera sannfærandi talsmáti ungs fólks. Í heildina er þýðing Ingunnar Snædal þó mjög góð og flæðir vel.

Fagri heimur, hvar ert þú er svo sannarlega nútímasaga. Í henni gúggla persónur sig, tala saman í skeytastíl á samfélagsmiðlum og ræða Brexit, Trump, loftslagsbreytingar og heimsfaraldurinn. Á heildina litið er Fagri heimur mjög vel skrifuð bók. Samtölin eru raunsæ og áhugaverð og textinn flæðir einstaklega vel. Vangaveltur vinkvennanna í tölvupóstasamskiptunum eru innihaldsríkar og spennandi. Prósi Sally Rooney er á tíðum ótrúlega næmur og fallegur, til dæmis í lýsingum hennar á ímyndunarafli bernskunnar, minningum af horfnum tíma og fíngerðum blæbrigðum í tilverunni, á borð við hvernig sumarnótt í írskum smábæ breytist í ferskan morgun. Einn helsti styrkur bókarinnar er sá að vitsmunalegt samband tveggja ungra kvenna er í forgrunni hennar, nokkuð sem maður sér ekki oft. Eileen og Alice eru skarpar, hnyttnar og eldklárar konur með áhugaverðar hugmyndir, en um leið ófullkomnar og heildstæðar persónur.