Freysteinn Sigmundsson jarðeðlisfræðingur var í viðtali frá gosstöðvunum í Meradölum í kvöldfréttum sjónvarps. Freysteinn segir eldgosið í góðu samræmi við það sem búist var við. „Við vorum að horfa á jarðskjálftavirkni og jarðskorpuhreyfingar og það varð til ákveðið líkan sem var kynnt í gær. Þetta er bara í býsna góðu samræmi við það.“
Hann segir bæði staðsetninguna og kraftinn vera í samræmi við líkön og það sem gert var ráð fyrir, búist hafi verið við meiri krafti en síðast og það sé að raungerast. „Við erum að sjá það, það er meiri kraftur hérna og það er meira af kviku sem er að koma upp.“
Vísindamenn eru við gosstöðvarnar að safna sýnum úr hrauninu, fylgjast með þróun og gangi gossins og fylgjast með öllum aðstæðum sem Freysteinn segir geta breyst fljótt. „Það er mikið af gasi sem kemur upp af því að það er meira af hrauni, aðstæður geta breyst hratt og líka ef vindátt breytist. Gosstaðurinn sjálfur liggur lágt og þeir sem skoða gosið þurfa að taka mið af því að aðstæður geta breyst hratt.“