Sá sem stóð að baki sprengjuhótun um borð í flugvél sem var snúið við yfir Grænlandi og lent á Keflavíkurflugvelli síðdegis í gær fór líklegast aftur um borð í vél ásamt öðrum farþegum um þrjúleytið í dag. Aðeins fjórir af 266 farþegum vélarinnar ákváðu að fara ekki með vélinni. Yfirheyrslur fóru fram í gærkvöld en ekki er vitað hver var að verki og því öllum hleypt úr landi í dag.

Vélin, sem er airbus þota frá þýska flugfélaginu Condor, var á leið frá Frankfurt í Þýskalandi til Seattle í Bandaríkjunum þegar áhöfnin varð vör við hótunina. Hún var þá yfir Grænlandi og henni samstundis snúið við til Íslands. Vélin var rýmd og sprengjusveit ríkislögreglustjöra og Landhelgisgæslunnar hófu að rannsaka vélina. Allir farþegar vélarinnar voru yfirheyrðir.

Engin sprengja fannst

„Aðgerðir miðast að því fyrst og síðast að tryggja að sprengja væri ekki um borð í flugvél eða á farþegum eða í farangri og það er forgangsverkefni sem gekk upp. Það fannst engin sprengja.“

Rannsókn lögreglu er enn í gangi en að sögn Úlfars er hún viðamikil og gæti tekið einhverja mánuði. Lögregla hefur safnað rannsóknargögnum, meðal annars úr farangri farþega. 

„Við erum með þessi ummerki í vélinni. Það er kortað þarna á tvo spegla. Þetta er íslenska orðið sprengja, enska heitið bomb sem þarna stendur.“

Fóru með annarri vél í dag

Airport Associates sinntu þjónustu fyrir vél og farþegana þegar aðgerðum lauk á miðnætti. Þeir höfðu þá beðið í sjö tíma á lokuðu svæði á vellinum og eftir það var þeim dreift á ellefu hótel á suðvesturhorninu. Vélinni var flogið aftur til baka til Þýskalands en farþegarnir héldu áfram ferð sinni til Seattle með annarri flugvél Condor sem fór í loftið klukkan þrjú í dag.

„Þegar svona kemur upp á þá er eiginlega alltaf send önnur vél og önnur áhöfn. Ég held að það sé hugsað líka til að farþegar þurfi ekki að fljúga aftur með sömu vél og sprengjuhótun kom í,“ segir Sigþór Kristinn Skúlason, forstjóri Airport Associates. 

Ætlar ekki að fljúga aftur með Condor

Farþegar voru misupplagðir þegar þeir biðu eftir að innrita sig í flugið til Seattle í morgun. Einn farþegi sagði að það væri sérstök tilfinning að fara um borð í vél með þeim sem að skrifaði hótunina. „Mér líður eins og sá seki sé á meðal okkar. Það er frekar áhugavert. Mér líður ekki öruggum að fara um borð og mun líklegast aldrei fljúga með Condor aftur,“ sagði Christian Cunningham frá Bandaríkjunum þegar fréttastofa náði tali af honum.