Tugir þúsunda tonna af bergi eru á hægri hreyfingu í Krísuvíkurbjargi, eftir að það mynduðust djúpar sprungur vegna jarðskjálfta undanfarin ár. Djúp sprunga hefur myndast nokkru vestan við gamla vitann á bjarginu, og rétt fyrir neðan vitann er stór bergfylla að klofna frá. „Þarna opnuðust sprungur þegar jarðskjálftahrinurnar voru 2020 og 2021. Þá mældust nokkrir skjálftar yfir 5 og losuðu mikið um bergið,“ segir Esther Hlíðar Jensen, landmótunarfræðingur hjá Veðurstofu Íslands.

Í kjölfarið voru settar upp varúðarmerkingar við Krísuvíkurbjarg, enda er þetta vinsæll viðkomustaður ferðalanga. Þarna eru einnig gönguleiðir meðfram bjargbrúninni. 

Vestan við gamla vitann á Krísuvíkurbjargi hefur myndast djúp og löng sprunga; á yfirborðinu sjást ummerki um hana á um það bil fimmtíu metra kafla, en nokkuð víst má telja að hún sé mun lengri. Rétt fyrir neðan vitann sjálfan eru síðan stórar bergfyllur á bjargbrúninni að klofna frá. Esther segir ekki mikla hættu á ferðum eins og staðan er núna, en ræður fólki hins vegar að vera á ferðinni þarna ef jarðskjálftahrinur standa yfir í nágrenninu.