Nýr úrskurður kærunefndar útlendingamála bindur hendur Útlendingastofnunar og er áfellisdómur yfir vinnubrögðum hennar, að mati lögfræðings og talsmanns flóttamanns. Hann segir aðferðir stofnunarinnar hvorki standast stjórnsýslulög né flóttamannarétt og telur ljóst að um 430 flóttamenn frá Venesúela sem bíða afgreiðslu sinna mála eigi rétt á vernd. Talsmaður Útlendingastofnunar segir úrskurðinn fordæmisgefandi.

Flóttafólki frá Venesúela hefur fjölgað hratt hér á landi á síðustu árum. Árið 2020 komu hingað 104 flóttamenn frá Venesúela, í fyrra 361 og það sem af er þessu ári hafa komið hingað 460 manns. Af þeim bíða 434 umsækjendur þess að fá mál sín afgreidd hjá Útlendingastofnun. 

Synjanir og breytt framkvæmd

Fólk frá Venesúela hefur átt nokkuð greiðan aðgang að vernd hér á landi, vegna þess hversu alvarlegt ástand ríkir í heimalandinu. Nokkrir fengu þó synjun á síðasta ári, sem kærunefnd útlendingamála felldi síðar úr gildi. Um miðjan desember í fyrra tilkynnti Útlendingastofnun svo um breytta stjórnsýsluframkvæmd sem hefði það í för með sér að flóttafólk frá Venesúela fengi ekki lengur skilyrðislaust viðbótarvernd á grundvelli aðstæðna í landinu. 

„Með þessari breyttu stjórnsýsluframkvæmd vildum við leggja áherslu á að við þyrftum að skoða hvert mál fyrir sig og fara í þetta einstaklingsbundna mat af því líka hópurinn var farinn að stækka gríðarlega mikið og það voru komnar mjög margar sögur. Þannig að við þurftum að skoða þetta aðeins dýpra heldur en að skoða eingöngu ríkisfangið. Út á það gekk þessi breytta stjórnsýsluframkvæmd,“ segir Íris Kristinsdóttir, sviðsstjóri verndarsviðs hjá Útlendingastofnun.

Þótti undarlegt að einhverjir hefðu farið heim

Breytingin var meðal annars rökstudd með þeim hætti að Útlendingastofnun hefði borist upplýsingar um flóttamenn frá Venesúela á Íslandi sem hefðu farið tímabundið aftur til síns heimalands.  „Slíkt getur verið grundvöllur afturköllunar á vernd þar sem verndin er veitt á þeirri forsendu að öryggi flóttamanns sé í hættu í heimalandi. Snúi hann þangað aftur gefur það í skyn að flóttamaðurinn þurfi ekki á alþjóðlegri vernd að halda,“ sagði í rökstuðningnum.

Breyttri framkvæmd fylgdi að frá áramótum myndi stofnunin leggja einstaklingsbundið mat á hverja umsókn. Síðan þá hafa nokkrir umsækjendur fengið synjun en á mánudag felldi kærunefnd útlendingamála eina þeirra úr gildi.

Telur úrskurðinn binda hendur Útlendingastofnunar

Í úrskurði nefndarinnar furðar hún sig á að stofnunin hafi við ákvörðunina ekki litið til úrskurða hennar frá síðasta ári í sambærilegum málum.

„Þetta er auðvitað fyrst og fremst áfellisdómur yfir vinnubrögðum Útlendingastofnunar, bæði þegar kemur að stjórnsýslurétti og útlendingarétti og réttindum umsækjenda um alþjóðlega vernd á Íslandi. Þetta þýðir í rauninni það að þeir rúmlega fjögur hundruð einstaklingar frá Venesúela sem hafa sótt um alþjóðlega vernd á Íslandi, þeir eiga nær allir rétt á alþjóðlegri vernd eða viðbótarvernd á Íslandi, það er alveg skýrt,“ segir Albert Björn Lúðvígsson, lögfræðingur og talsmaður þess sem var synjað.

Það hafi komið á óvart að stofnunin hafi aftur reynt að synja flóttafólki frá Venesúela um vernd, þrátt fyrir að mat kærunefndarinnar væri skýrt. Hann leggur áherslu á að aðstæður í Venesúela hafi ekki batnað og segir að Útlendingastofnun hafi heldur ekki haldið því fram.

„Mat nefndarinnar annað en okkar“

Íris hjá Útlendingastofnun segir að stofnunin hafi ekki haft forsendur til að vita að ákvörðuninni yrði snúið við, en að hún sé fordæmisgefandi. „Þetta er náttúrulega bara úrskurður í einu máli, í máli einstaklings, og þar er bara mat nefndarinnar annað en okkar á því hvar þröskuldurinn liggur, hvort þú átt rétt á viðbótarvernd eða ekki. Þannig að hvort við höfum verið að gera rangt eða ekki, jú, þessi úrskurður er fordæmisgefandi fyrir okkur svo við vinnum bara eftir þeirra mati héðan af á aðstæðunum eins og þær eru núna í dag,“ segir hún.