Kópur, sem vart var hugað líf þegar hann var fluttur úr Reykjavíkurhöfn í Húsdýragarðinn á mánudagskvöld, er allur að braggast. Dýraþjónusta Reykjavíkur annast hann og stefnir á að sleppa honum aftur út í sjó.

„Hann var rosalega illa farinn. Hann var aðframkominn af þreytu og hungri. Hann rankaði ekki við sér fyrr en ég beygði mig yfir hann,“ segir Veigar Friðgeirsson, starfsmaður Dýraþjónustu Reykjavíkur. 

Og hvað heldurðu að hafi komið fyrir hann?

„Það sem er líklegast er að mamma hans hafi einfaldlega losað sig við hann af brjósti og hætt að fæða hann. Það er víst svoleiðis að hlutfallið af ungum selum sem deyja vegna þess er frekar hátt,“ segir hann. Veigar telur að kópurinn sé um það bil sex vikna gamall.

Dýraþjónustan hafði fengið nokkrar tilkynningar um kópinn við Reykjavíkurhöfn í aðdragandanum, en hann hafði aldrei stoppað nógu lengi í landi svo hægt væri að bjarga honum. 

„Hann er allur að braggast, allur að koma til. Við byrjuðum á að dæla í hann vatni, og dæla í hann vítamínum. Hann tók svolítið vel við því. Svo núna í samráði við dýralækni er hann búinn að fá fiskisjeik sem við gefum honum fjórum til fimm sinnum á dag. Síðan förum við að reyna að gefa honum heila fiska fljótlega. Ég er mjög bjartsýnn,“ segir Veigar. 

Ef hann braggast á næstu dögum, hver verða örlög hans?

Við viljum að villt dýr fái að vera í náttúrunni, þannig að við reynum að senda hann aftur út í sjó ef það er möguleiki,“ segir Veigar.

Fer manni ekki að þykja pínulítið vænt um svona kóp þegar maður er að sjá um hann?

„Jú, heldur betur. Þetta er náttúrulega eiginlega krúttlegasta dýrið, svona ungi. Þetta er bara smákrakki, maður vill honum bara vel,“ segir Veigar. 

Ekki er ennþá vitað hvers kyns kópurinn er, en hann verður kallaður Veigar eða Veiga í höfuðið á Veigari.