Allt upp í 20 til 30 bátar á sumum svæðum við landið hafa gerst uppvísir að brottkasti í drónaeftirliti Fiskistofu. Nokkur mál á þessu ári hafa verið kærð til lögreglu. 

142 mál í fyrra og svipað hlutfall nú

Fiskistofa byrjaði eftirlit með drónum í janúar í fyrra. Það skilaði sér vel því hægt var að koma upp um miklu fleiri brottkasts mál en áður. Í fyrra voru þau samtals 142. 

„Hlutfallið á þessu ári hefur verið svipað. En á þessu ári þá hafa nokkur mál verið kærð til lögreglu og eru í vinnslu,“ segir Sævar Guðmundsson deildarstjóri landeftirlits hjá Fiskistofu.

Ábendingar skila sér ekki í bættri umgengni

Það eru ekki bara smábátar undir í eftirlitinu heldur líka stærri bátar sem eru að veiða nærri landi. 

„Svona leiðbeiningar og ábendingar í fjölmiðlum og öðru slíku virðast ekki hafa skilað sér til bættrar umgengni.“

20 til 30 % báta stunda brottkast 

Og á sumum veiðisvæðum er hlutfall báta sem henda smáfiski frá borði hátt: 

„Það sem við erum að sjá á sumum svæðum, fer eftir því hvað bátar eru nálægt landi, að þá erum við að sjá kannski allt upp í 20, 30 prósent. Þannig að það er miður að sjá slæma umgengni. En við sjáum mjög góða umgengni líka þ.a. þetta er ekki bara svartnætti. Við sjáum marga ganga, náttúrulega megnið af flotanum er að ganga mjög vel auðlindina en það er frávik því miður sem við sjáum. “

Drónarnir hafa umbylt eftirlitinu

Fiskistofa er með fimm til sex dróna við eftirlit og notar það líka til að hafa eftirlit með lax- og silungsveiðum í sjó og malartekju í veiðiám. 

„Við höfum ærin verkefni og þessi notkun á nýjum tækjum hefur umbylt í sjálfu sér eftirlitinu til hins betra.“