Enn greinast hundruð Íslendinga með covid á dag. Sóttvarnalæknir hefur eins og starfsbræður hans í Evrópu áhyggjur af nýrri bylgju í haust því skætt veiruafbrigði er á ferð.
Bólusetning 60 - 69 ára í undirbúningi
Fjórði bóluefnaskammturinn verður boðinn allt niður í sextíu ára aldur í haust.
„Við vitum það að verndin bæði eftir bólusetningar og fyrri smit dvín með tímanaum og breytist líka með tilkomu nýrra afbrigða. Og eftir því sem tíminn líður að þá aukast líkurnar á endursmitum og jafnvel nýjum smitum. Og það er það sem menn hafa áhyggjur af og hvað gerist í haust. Aþjóðaheilbrigðisstofnunin og Sóttvarnastofnun Evrópu hefur ákveðnar áhyggjur af því að við munum kannski fá nýja bylgju í haust og í vetur. Auðvitað á það bara eftir að koma í ljós en þetta er svona angi af því sama. Og þess vegna eru uppi þessar áætlanir um örvunarbólusetningar, hvernig tilhögunin á þeim verður í haust. Og það er það sem við höfum verið að tilkynna um og ræða um hér líka hvernig það verður. Áformin eru að bjóða öllum 60 ára og eldri örvunarbólusetningu í haust með nákvæmlega hvaða bóluefni er ekki alveg ljóst á þessari stundu hvaða bóluefni muni gagnast best,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Góðar heimtur hjá þeim elstu
80 prósent fólks yfir áttræðu hefur þegið fjórða skammtinn og rúmlega fjórðungur þeirra sem eru á áttræðisaldri. Yngra fólki er líka heimilt að mæta í bólusetningu.
Grímuskylda ekki til umræðu
Yfirmaður Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar í Evrópu sagði í gær að taka ætti um grímuskyldu til að komast hjá takmörkunum í haust. Engin áform eru um það hér, segir Þórólfur, og það var ekki rætt á fjarfundi sem hann átti með starfsbræðrum sínum í öðrum Evrópuríkjum í morgun. Hann segir að tilmæli til viðkvæmra hópa um að nota grímu í fjölmenni dugi.
80 prósent smita af völdum BA.5
Átta af hverjum tíu sem greinast eru með hið skæða BA.5 afbrigði. Hærri tíðni BA.5 smita helst í hendur við aukningu endursmita. Í fyrradag greindust samtals 258 innanlandssmit:
„Það er búin að vera nokkuð lengi þessi tala, búin að vera nokkuð lengi sú sama. Og jafnvel var hærri hérna fyrir tveimur vikum siðan, milli 4 til 500 manns. Þannig að maður getur svona spurt sig hvort þetta sé eitthvað að sjatna í þessu. En auðvitað veit maður það ekki vegna þess að það eru ekki allir sem fara í opinbert próf. Vissulega er fólk að veikjast það alvarlega að það þarf að leggjast inn á spítala. Það eru tæplega 30 manns núna inni á Landspítalanum og mikil svona hreyfing inn og út. Þannig að við erum að sjá alvarlega veikindi hjá fólki sem eru líka með undirliggjandi aðra sjúkdóma. Jú, jú það er fyllsta ástæða til að hafa áhyggjur af því,“ segir sóttvarnalæknir.
Myndin sýnir nýnema í Tækniskólanum í fyrrahaust í útibúi skólans í Hafnarfirði.