Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum hefst eftir tíu daga og er sú fyrsta sem er haldin í þrjú ár. Undirbúningur er í algleymingi, miðasalan hefur gengið mjög vel og allt stefnir í að hátíðin í ár verði ein sú fjölmennasta frá upphafi.

Eyjamenn hafa haldið hátíð í Herjólfsdal frá því sumarið 1874, þá til að fagna þúsund ára afmæli Íslandsbyggðar og nánast árlega frá 1901. Síðan þá hefur hátíðin vaxið með sínum hefðum og venjum.

Vegna kórónuveirufaraldursins hefur Þjóðhátíð í Eyjum ekki verið haldin í þrjú ár. Nú eru tíu dagar til stefnu, miðasalan á fullu og eftirvæntingin í algleymingi bæði meðal sjálfboðaliða og bæjarbúa sem keppast við að gera allt klárt.

„Hún stefnir í að verða fjölmenn hvort hún verður sú stærsta verður að koma í ljós,“ segir Hörður Orri Grettisson, formaður þjóðhátíðarnefndar.

Hann segir það vera fyrst og fremst veðrið sem muni stjórna því hversu margir komi á endanum. Veðrið sé lykilþáttur í því að hátíðin fari sem best fram og að bundnar séu vonir við góða veðurspá.

„Langtímaveðurspáin er bara mjög góð, þannig að við erum bara mjög bjartsýn á að þetta verði ein sú fjölmennasta frá upphafi.“

Brekkusöngurinn verður á sínum stað

Klara Elíasdóttir semur og syngur þjóðhátíðarlagið sem hún frumflytur á kvöldvökunni á föstudagskvöld í Herjólfsdal. Og Brekkusöngurinn verður á sínum stað.

„Það verður Magnús Kjartan Eyjólfsson, söngvari Stuðlabandsins, sem mun syngja Brekkusönginn. Hann söng hann í fyrra en þá því miður fyrir tómum dal sem var þó streymt til landsmanna en hann mun stíga á svið fyrir fulllum Herjólfsdal á sunnudeginum,“ segir Hörður.

Í gær var opnað fyrir umsóknir lóða þannig að nú eru Eyjamenn í óða önn að viðra hvítu tjöldin sem eiga eftir að setja svip sinn á hátíðina og dalinn.

Hörður segir hátíðina vera risastóran part af samfélaginu í Vestmannaeyjum, að halda þjóðhátíð bæði fyrir fjölskyldur og aðra að koma saman og hittast. Það sé langt síðan síðast.

„Þó að fólk hafi reynt að gera gott mót úr þessu síðustu verslunarmannahelgar þá jafnast ekkert á við það að hitta sitt fólk uppí Brekku og skemmta sér saman á þjóðhátíð í Vestmannaeyjum.“