Íslenskur kennari vinnur nú að fjármögnun sumarnámskeiðs fyrir úkraínsk börn hér á landi, þar sem þau fá meðal annars að læra skapandi skrif og ljósmyndun. Á sama tíma hefur hann komið upp dagvistun í Hátúni. Krakkarnir segjast njóta sín vel og eru sum hver farin að læra svolitla íslensku.

Síðustu mánuði hefur Markús Már Efraím skipulagt ýmsa viðburði fyrir úkraínsk börn hér á landi, þar má nefna styttri ferðalög í trampólíngarðinn Rush eða útilegu í Vatnaskógi, svo dæmi séu tekin. Börnin hafa myndað góð tengsl sín á milli enda sækja þau reglulega dagvistunina í Hátúni, sem er á vegum samtakanna Flottafólk. Samtökin starfrækja einnig samfélagsmiðstöð flóttamanna að Aflagranda 40 og úthlutunarmiðstöð í Neskirkju og fleira. 

 „Það er yfirleitt mikill fjöldi hér en eins og í þessum viðburðum og fleira sem við höfum verið að skipuleggja höfum við verið að fara með um eða yfir 100 manns, að minnsta kosti,” segir Markús.

Hann segir að dagvistunin sé tilkomin vegna styrkja; fólk og fyrirtæki hafi lagt þeim lið með leikföngum, mat og ýmsum nauðsynjavörum, og að allt sé unnið í sjálfboðavinnu. Konstantin Stroginov er einmitt sjálfboðaliði í Hátúni, en hann hefur búið á Íslandi, með hléum, í tuttugu ár. 

„Foreldrar eru mjög ánægðir, ef maður talar við Úkraínumenn sem koma með börn hingað segja að þetta sé besti staðurinn fyrir úkraínsk börn í Reykjavík. Alltaf gaman hér.”

Konstantín segir að krakkarnir fái að dunda sér eins og þeir vilja. Þó sé ein höfuðregla sem börnin þurfi að fylgja. 

„Við leyfum næstum því allt hér - nema að vera brjálaður,“ segir hann. „Þannig að þau bara hamingjusöm.”

Markús vinnur nú að því að fjármagna næsta verkefni með sölu á bókinni Eitthvað illt er á leiðinni, eftir nítján unga rithöfunda. Þá mun krökkum gefast kostur á að læra skapandi skrif og ljósmyndun. 

„Það voru unglingar í Skarðshlíðarskóla í Hafnarfirði sem héldu söfnun í vor og keyptu fullt af polaroid-myndavélum og filmum sem við getum notað í starfinu. Það er ætlunin að fara með krakkana út og segja söguna með ljósmyndun og í samstarfi við bandarískt barnamenningartímarit sem ætlar að birta verk eftir krakkana,“ segir Markús. 

Krakkarnir segjast hafa sérstaklega gaman að því að teikna og horfa á Netflix og líður vel á Íslandi, segja þær Veronika og Polina og frá Mariupol. Veroniku finnst gaman að vera í fríi frá skóla og Polinu þykir gaman að eiga marga vini á Íslandi. Hvoruga þeirra langar aftur heim til Úkraínu - að minnsta kosti ekki eins og staðan er núna - og segjast glaðar á Íslandi og í dagvistuninni í Hátúni.

Hér er hægt er að nálgast upplýsingar um bókina Eitthvað illt er á leiðinni.