Fyrstu framkvæmdir við nýja Hlemmtorgið eru hafnar en gert er ráð fyrir að Hlemmur verði með öllu bíllaus á næstu þremur árum. Einkabíllinn fær að víkja fyrir almenningssamgöngum, gangandi og hjólandi vegfarendum. Borgarstjóri segir að markmiðið með nýju torgi sé að breyta því í mannlífsmiðpunkt í borginni. 

Ekki opnað aftur fyrir bílaumferð um Rauðarárstíg

Um er að ræða fyrstu áfanga framkvæmda við að innleiða nýtt deiliskipulag fyrir Hlemm sem var samþykkt í byrjun árs 2020. Framkvæmdirnar sem nú eru hafnar ná frá Bríetartúni að Gasstöðinni á Hlemmi en lokað hefur verið fyrir Rauðarárstíg frá Bríetartúni. Ekki verður opnað fyrir almenna bílaumferð um Rauðarárstíg aftur en þar er meðal annars gert ráð fyrir bekkjum og leiksvæði. Áætluð verklok á þessum fyrsta áfanga eru næsta vor.

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík, segir að torgið muni iða af lífi að framkvæmdum loknum. „Þetta er endanleg andlitslyfting á þessu svæði sem byrjaði með endurskipulagningu opnun mathallarinnar. Nú á að fara að taka  torgsvæðið í gegn hér í áföngum og auðvitað koma fyrir Borgarlínunni og mörgu skemmtilegu, leiksvæðum í raun fyrir alla aldurshópa og gera þetta að mannlífsmiðju í borginni. Hús verða endurgerð og komið fyrir svæðinu, svið verður sett upp og önnur stórskemmtileg áform.“

Helst í hendur við Borgarlínu

Framkvæmdir við Hlemm hafa tafist töluvert. Að sögn Dags haldast framkvæmdirnar í hendur við Borgarlínuna sem hefur nú þegar verið frestað um heilt ár en einnig sé um að ræða umfangsmiklar breytingar, meðal annars á umferð í miðborginni. 

„Einkabílarnir víkja. Það gerist í áföngum núna næstu þrjú sumur. Það þarf að vanda þessa áfangaskiptingu vegna þess að það er heilmikil starfsemi hér og mjög mikið í gangi. Þannig við byrjum við Rauðarárstíginn annars vegar og Snorrabrautina hins vegar svo gerist þetta stig af stigi. Það var ekkert vit í því að umbreyta torginu og umbreyta því svo aftur vegna Borgarlínu heldur mun þetta allt haldast í hendur.“