Íslenska ríkið hefur skilað inn greinargerðum í málum níu íslenskra kvenna sem kærðu málsmeðferð íslenska réttarkerfisins í málum þeirra til Mannréttindadómstóls Evrópu. Málin vörðuðu ofbeldi og voru felld niður án þess að fara fyrir dóm. Lögmaður þeirra segir jákvætt hversu langt málin hafa náð.

Konurnar níu kærðu ofbeldisbrot, nauðganir og áreitni til lögreglu en mál þeirra voru felld niður án þess að þau færu fyrir dóm. Þær kærðu málsmeðferðina til Mannréttindadómstóls Evrópu fyrir um tveimur árum.

Dómstólinn krafði íslenska ríkið svo svara um hvers vegna kærur kvennanna voru felldar niður og hvort það stæðist mannréttindasáttmálann. Nú hefur ríkið og lögmaður kærendanna skilað inn öllum greinargerðum og málið fer í ferli hjá dómstólnum sem ákveður hvort tilefni sé til að taka málið lengra. Sigrún Ingibjörg Gísladóttir lögmaður kvennanna segir erfitt að spá fyrir um hvað taki við.

„Það á eftir að koma í ljós í hvaða ferli málin fara. Við teljum þetta mjög mikilvægan áfanga sem við höfum náð núna. Það er búið að skoða ólíka anga þessara mála og hvernig þau eru rannsökuð. Þetta er mjög mikilvægur áfangi sem við höfum náð núna, að fara aðeins ofan í þessi mál.“

Ríkið telur rannsókn málanna forsvaranlega

Greinargerð ríkisins byggist á því að rannsókn þessara mála hafi verið forsvaranleg út frá ákvæðum mannréttindasáttmálans sem eru til skoðunar. Kærendur telja að rannsókn í málum þeirra hafi alls ekki verið nægilega skilvirk. „Umbjóðendur mínir byggja á því að rannsóknin í málum þeirra hafi ekki verið eins og hún átti að vera og það hafi ekki átt að fella þessi mál niður heldur taka þau áfram. Það eru ýmis atriði sem eru þar til skoðunar, lengd rannsóknarinnar, bið eftir skýrslutöku af sakborningi og fleira.“ Ingibjörg bætir því við að langan tíma taki að vinna mál sem þessi hjá dómstólnum.

„Niðurstaðan hjá Mannréttindadómstólnum mun ekki breyta neinu í þessum einstaka málum heldur er vonin að þetta hafi einhver áhrif á kerfið, algjörlega óháð niðurstöðu dómstólsins. Maður vonar að þetta kalli á innri athugun.“