„Það er svolítið heitt. Fólk er svolítið dasað í hitanum en það er mjög gaman,“ segir Sveinn Ásgeirsson, formaður Tólfunnar, stuðningsmannaliðs íslensku landsliðanna.
Hann er staddur á aðdáendasvæðinu á All Saints-torginu í miðbæ Rotherham. Mikil stemning er á svæðinu, bláklæddir Íslendingar eru um allt og dansa og skemmta sér.
Hitabylgja gengur yfir England og hitinn er kominn vel upp fyrir 30 gráður að sögn Sveins. Bjórbíll sem átti að vera á aðdáendasvæðinu varð frá að hverfa vegna hitans.
Matarbúð er á torginu sem Sveinn segir að græði vel á Íslendingum í dag. „Þau eru með fullar hillur af vatni og drykkjum þannig að það er enginn vatnsskortur hérna.“ Starfsmenn frá UEFA gangi einnig um aðdáendasvæðið með pumpubrúsa fulla af vatni og gefi þeim sem vilja.
Aðdáendur ætla að ganga fylktu liði í skrúðgöngu á leikvanginn innan skamms. Þetta er lokaleikur kvennalandsliðsins í riðlakeppninni á EM og hefst hann klukkan 18:50. Leikurinn verður sýndur í beinni útsendingu á RÚV.
Myndskeið og myndir: Edda Sif Pálsdóttir og Ásta Benediktsdóttir.