Það eru ekki margir sem spinna ull á rokk nú til dags. Þeir eru þó líklega enn færri sem spinna úr hundahárum en það gerir hundabóndi í Eyjafirði áður en kona hans prjónar úr hnyklunum. Og efniviðurinn er endalaus.

Byrjuðu með einn en eiga nú 18

Í Glæsibæ, rétt utan við Akureyri, býr fimm manna fjölskylda auk átján Husky hunda. 

María Björk Guðmundsdóttir, hundabóndi, segir að þau hafi eignast sinn fyrsta hund 2011. „Þetta byrjaði náttúrulega bara á á einum, svo fengum við annan og svo þriðja, Stutta útgáfan er að þetta bara gerðist hægt og rólega með tímanum.“

Þegar fór að fjölga í hópnum fóru þau að nota hundana til að draga sleða í sleðakeppnum. Þá fannst þeim vanta fleiri hunda og smám saman bættist í hópinn.

„Þegar maður fór að keppa á þeim á sleðunum fann maður kraftinn og hvað þetta var gaman,“ segir hundabóndinn Gunnar Eyfjörð Ómarsson.

Hjónin reka fyrirtæki þar sem þau fara með ferðamenn í sleðaferðir á hundasleðum.

Lærði að spinna til að nýta hárin

Hundarnir nýtast þó ekki eingöngu til ferðaþjónustu heldur eru hár þeirra nýtt til að spinna garn og prjóna úr því.

„Við erum með alla þessa hunda, ég er að moppa gólfin alla daga, tvisvar á dag þegar þeir eru í hárlosi. Þannig að ég tók mig til fyrir einhverjum árum og byrjaði að safna,“ segir Gunnar og sýnir stóra fötu fulla af hundahárum sem safnast hefur aðeins á þessu ári.

Gunnar fór á spunanámskeið þar sem hann lærði að spinna úr kindaull en fór síðan að æfa sig með hundahárin sem eru talsvert styttri.

María Björk notar síðan bandið til að prjóna, í fyrstu húfur en stefnir á að búa til vettlinga og peysur. Hún segir að það hafi verið til þess gert að nýta þetta góða efni, að það færi ekki til spillis.

Hárin, sem safnast hafa í nokkur ár, fylla þrjá stóra ruslapoka og alltaf bætist í.

Gunnar segir að hann verði örugglega aldrei búinn með efnið. Þetta sé eilífðarverkefni en verði vonandi bara gaman að sitja við rokkinn í nánustu framtíð.