Franska fyrirtækið, Ardian, sem ætlar að kaupa Mílu af Símanum segist ekki vilja ljúka tugmilljarða viðskiptum samkvæmt kaupsamningi við Símann. Það er vegna þess að skilyrði sem fram hafi komið í sáttaviðræðum við Samkeppniseftirlitið séu íþyngjandi og hafi neikvæð áhrif á kaupsamninginn sem geri það að verkum að eitt skilyrði í kaupsamningnum sé ekki uppfyllt. Orri Hauksson forstjóri Símans segir vonast til að þetta gangi fyrir 18. ágúst þegar sáttaviðræðum á að ljúka.
Í október var tilkynnt að Ardian hefði samið við Símann um að kaupa Mílu fyrir meira en 70 milljarða króna með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins. Míla byggir og rekur innviði fjarskipta landsins. Salan kom á borð ríkisstjórnarinnar og var gerður samningur milli ráðherra og Mílu með kvöðum vegna þjóðaröryggishagsmuna.
Nú er staðan þannig samkvæmt tilkynningu Símans til Kauphallarinnar í gærkvöldi að Ardian hefur lagt tillögur fyrir Samkeppniseftirlitið í viðræðum þeirra um samninginn. Í tillögunum felst að breytingar eru gerðar á heildsölusamningi milli Símans og Mílu. Þær tillögur telur Ardian vera íþyngjandi og hafa neikvæð áhrif á kaupsamninginn við Símann. Verði þessi skilyrði hluti þess að samkeppnisyfirvöld fallist á samrunann þá lítur Ardian svo á að eitt skilyrða sem fram komi í kaupsamningnum sé ekki uppfyllt. Og því vilji Ardian ekki ljúka viðskiptunum á grundvelli óbreytts kaupsamnings. Þetta þýðir með öðrum orðum að Ardian vill lækka verðið sem það greiðir fyrir Mílu.
„Það samtal sem er í gangi milli Ardian og Samkeppniseftirlitsins telur Ardian að feli mögulega í sér neikvæð áhrif á Mílu og þess vegna þurfi að sendursemja við seljandann sem erum við,“ segir Orri Hauksson forstjóri Símans hf.
Geturðu útskýrt þetta skilyrði svona tæknilega?
„Við lögðum þau ekki fram þannig að Ardian verður nú kannski að gera nánari grein fyrir þessu skilyrðum. En þetta snýst nú fyrst og fremst um starfsemi Mílu fram á við, viðskipti Símans og Mílu fram á við. Auðvitað er Síminn mjög stór viðskiptavinur Mílu og hefur verið alla tíð og verður áfram ef að verður hægt að selja Mílu. Þarna er verið að tala um skilyrði sem snúast um þessi viðskipti og margt sem því tengist.“
Hvernig heldurðu að þetta fari, heldurðu að kaupsamningurinn nái ekki fram að ganga?
„Það eru margir aðilar sem koma að þessu. Þetta eru má segja þríhliða, þetta er Síminn, þetta er Míla, Ardian, Samkeppniseftirlitið, við auðvitað ætlum bara að freista þess að láta þetta ganga. Við teljum að þetta sé mjög gott fyrir land og þjóð og fjölbreytni og fjárfestingar á íslenskum fjarskiptamarkaði.“