Ofbeldi og hatur í garð hinsegin fólks er að aukast á Íslandi, segir Daníel E. Arnarsson, framkvæmdastjóri Samtakana '78. Hann kallar eftir auknum fjárstuðningi til að vinna gegn þessari þróun.
Daníel var gestur á Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun. Hann segir að hægt sé að flokka hatursorðræðu og -glæpi gegn hinsegin fólki í þrjú stig. Lengi hafi staðan verið á fyrsta stigi hér á landi, þar sem hatur og hatursorðræða birtist nokkuð leynt en reynt sé að grafa undan réttindabaráttu hinsegin fólks. Til að mynda með greinaskrifum þar sem jafnvel þurfi að lesa boðskapinn á milli línanna.
Nú sé hatrið þó að færast yfir á næsta stig. Til marks um það sé orðið algengara að gelt sé að hinsegin fólki. „Það er þessi fasi tvö sem við myndum kalla, að hatrið er meira, það er einhvern veginn áþreifanlegra. Það liggur ekki bara svona undir niðri heldur finnum við meira fyrir því. Svo er það þriðja stigið sem við erum að sjá kannski í Evrópu, Ungverjalandi eða Póllandi, ég tala nú ekki um Rússlandi eða fleiri stöðum, þar sem þetta er samfélagslega viðurkennt.“
Samtökin þurfa fjármagn til að bregðast við
Daníel segir miður að hatursorðræða og -glæpir gegn hinsegin fólki séu ekki skráðir sérstaklega hjá lögreglunni og því skorti tölfræði. Hann segir tilfinninguna hafa verið þá, undanfarin tvö ár, að það sé að aukast. Hægt er að tilkynna hatur og ofbeldi á vef samtakanna.
Daníel segir að samtökin hafi stækkað mikið á undanförnum árum en verkefnin séu ærin. Til að geta brugðist við þessari þróun á sem breiðustum grunni þyrfti aukið fjármagn. Sambærileg samtök annars staðar á Norðurlöndum standi mun styrkari fótum fjárhagslega. „Við erum alltaf að reyna að grípa og reyna að redda peningum, nánast mánuð frá mánuði.“
Daníel segir mikilvægt að vera vakandi fyrir þróun í átt til aukins hatrus og bregðast við henni. „Við verðum að taka á þessu núna. Vegna þess að um leið og samfélagið er búið að viðurkenna eitthvað með þögn sinni þá er voðinn svolítið vís fyrir minnihlutahópa.“