Þrátt fyrir að síldarmiðin séu ekki eins gjöful og áður má segja að nýtt síldarævintýri sé hafið á Siglufirði. Met er á bókunum á síldarsöltunum en nú er saltað fyrir erlenda ferðamenn.
Fleiri gestir en fyrir faraldur
Síldarminjasafn Íslands var opnað nítján hundruð níutíu og fjögur og gestum hefur fjölgað hratt.
„Það hefur komið okkur mjög skemmtilega á óvart að við erum að upplifa ákveðna sprengju af gestum. Það sem af er ári erum við að sjá fleiri gesti heldur en fyrir covid,“ segir Anita Elefsen, safnstjóri.
„Síldarstúlkur og drengir slá í gegn í hvert sinn“
Á safninu er hægt að skoða muni og fræðast um sögu síldaráranna. Það sem vekur mesta athygli er síldarsöltunin.
„Síldarstúlkurnar og strákarnir, þau auðvitað slá í gegn í hvert einasta sinn og og hafa aldrei verið bókuð jafn oft og þau hafa verið í sumar. Það er síldarvertíð hér á planinu við Síldarminjasafnið í sumar,“ segir Aníta.
Von er á tæplega þrjátíu þúsund gestum í sumar og sjötíu síldarsaltanir eru bókaðar.
Byrjaði 4 ára í sýningunum
Tinna Hjaltadóttir, 13 ára, er búin að taka þátt í sýningunum frá því hún var 4 ára, eða í níu ár. Hún segist þó hafa verið í einföldum hlutverkum þegar hún byrjaði. „Bara að beygja sig ofan í tunnuna og svona,“ segir Tinna.
Sigríður Birta Skarphéðinsdóttir er einnig síldarstúlka í sýningunum. Hún byrjaði í fyrrasumar og segir handtökin koma með tímanum og séu alls ekki svo erfið.
Fá aldrei nóg af síldinni
Síðan eru síldarstúlkur sem tóku þátt í hinu raunverulega síldarævintýri.
„Ég var 9 ára þegar ég fór fyrst á plan og saltaði. Þessar sýningar eru mjög líkar því sem var hér á sílarárunum. Alltaf gaman, alltaf stuð!“ segir Laufey Elefsen.
Birna Björnsdóttir var sömuleiðis ung að árum þegar hún fór að salta á bryggjunni. Hún segir síldartímann hafa verið ansi líflegan og skemmtilegan. „Það var náttúrulega mikið af sætum strákum á skipunum þegar við vorum unglingar við Laufey.“
Þær Laufey og Birna segjast aldrei fá nóg af síldinni og fullyrða að það sé ekki hægt að fá nóg af þessum síldarævintýrum.