Sara Björk Gunnarsdóttir fyrirliði íslenska landsliðsins í fótbolta var bæði svekkt en þó stolt eftir 1-1 jafntelfi Íslands á móti Frakklandi í lokaleik Íslands á EM á Englandi í kvöld. Úrslit kvöldsins þýða að Ísland er úr leik á EM.

„Ég verð eiginlega bara að fá smá tíma til að pæla í þessu. Þetta er náttúrulega bara ótrúlega svekkjandi. Frábær frammistaða hjá liðinu í dag. Við sýndum karakter og gáfum Frökkunum virkilega leik í dag. Við vorum að spila á móti einu besta landsliði í heimi og við áttum bara bullandi séns. Þetta var frábær leikur. Okkar besti leikur á mótinu. Ótrúleg stolt af liðinu og af hópnum. Það var geggjað að vera með þennan mikla stuðning. Ég er ótrúlega þakklát fyrir. Við erum ótrúlega þakklát fyrir þennan mikla stuðning. En það eru bara ótrúlega miklar tilfinningar - svekkjandi,“ sagði Sara Björk eftir leikinn í kvöld.

„Það er auðvelt að segja að við eigum eitthvað inni þegar við gerum jafntefli. En við gáfum allt sem við áttum. Það féll ekki með okkur sigur á þessu móti. En við töpum heldur ekki leik á þessu móti. Það gleymist kannski að við vorum í erfiðum riðli og vorum að spila við heimsklassa lið. En það hefði mátt fara betur í fyrstu tveimur leikjunum. Auðvitað féllu þeir ekki með okkur. En við fengum færi og gátum unnið þá leiki. En það þýðir ekkert að tala um það núna. En ótrúlega stórkostlegur leikur í kvöld. Áttum meira skilið fannst mér. Við áttum skilið að fara upp úr riðlinum fannst mér. Svekkjandi, en ég er ótrúlega stolt af liðinu,“ sagði landsliðsfyrirliðinn.

Á síðasta Evrópumóti, 2017 í Hollandi tapaði Ísland öllum leikjum sínum. Sara Björk segir það aðra tilfinningu að falla úr leik í kvöld. „Auðvitað er niðurstaðan í ár vonbrigði. En tilfinningin er allt öðru vísi eftir þetta mót en það síðasta. Við áttum miklu betra mót núna. Mér fannst liðið sjálft spila betur. Fyrstu tveir leikirnir eru bara svekkjandi að við náðum ekki að tengja betur og spila betur ef maður hugsar út í það. Það er auðvitað hægt að hugsa hvað ef? En það er mikil reynsla sem við erum að fá í hópinn núna. Við verðum bara enn betri,“ sagði Sara Björk Gunnarsdóttir.

Allt viðtalið má sjá og heyra í spilaranum hér fyrir ofan.