Þorsteinn Halldórsson, þjálfari íslenska landsliðsins, segist liggur við vona að byrjunarliðsmenn Frakka muni vera með í leiknum mikilvæga á EM í fótbolta á morgun. Það gæti jafnvel verið betra fyrir liðið. RÚV ræddi við Þorstein um leikinn á morgun þar sem Ísland getur tryggt sig áfram í átta liða úrslit.
Ef úrslit verða okkur Íslendingum hagstæð í leik Belga og Ítala í sama riðli gæti verið að jafntefli og jafnvel tap dugi til að fara áfram. „Við þurfum að hugsa um sjálfa okkur,“ segir Þorsteinn.
„Auðvitað munum við fylgjast með hvernig staðan er í hinum leiknum en við þurfum að einbeita okkur að okkar leik. Ná úrslitum þar og hugsa um það. Auðvitað munum við spila til sigurs og reyna allt sem við getum til að vinna. Svo kemur bara í ljós hver endaniðurstaðan verður.“
Frakkar hafa tryggt sér efsta sæti D-riðils og því að engu að keppa fyrir þá á morgun. Því hafa margir velt því upp að liðið hvíli sína helstu leikmenn. „ Er eitthvað betra að fá ferska leikmenn inn sem hafa ekkert spilað eða fá leikmenn sem fara kannski af hálfum hug í verkefnið því þær þora ekki að meiðast, þora ekki að fara í tæklingu og þora ekki að fá gul spjöld?“ spyr Þorsteinn.
„Það eru ýmsir vinklar á þessu sem eru óútreiknanlegir. Ég er liggur við frekar á því að við viljum fá sem flestar af þeim til að spila og þær þori ekki að fara í tæklingar við okkur.“
Ísland leikur við Frakkland klukkan 19 á morgun í beinni útsendingu á RÚV. EM stofan hefst 18:15.