Heilbrigðisráðherra vill flýta því að hækka eftirlaunaaldur heilbrigðisstarfsmanna svo þeir geti unnið lengur en til sjötugs ef þeir óska þess. Þó er gert ráð fyrir að fólk verði rekið og ráðið aftur á nýjum samningi.
Samkvæmt lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna er þeim óheimilt að vinna lengur en til sjötugs. Heilbrigðisráðherra hefur hug á að gerðar verði undanþágur á því fyrir heilbrigðisstéttir. Hámarksaldur starfsmanna verði sjötiu og fimm ár. Unnt er að senda inn umsagnir í samráðsgátt stjórnvalda til fimmta ágúst vegna áformanna.
Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra segir að með þvi verði fólki kleift að vinna lengur til samræmis við fólk á almennum vinnumarkaði. „Að vinna aðeins lengur hafi þeir getu og vilja og færni til.“ „En væri þá ekki nær bara að hækka aldur allra opinberra starfsmanna sem að vilja vinna lengur?“ „Jú það mál er einmitt í verkefnahópi sem að er að vinna svona þverfaglega með sveitarfélögum og þvert á ráðuneyti og við köllum sveigjanleg starfslok. Þannig að það sé samræmi á milli hins opinbera markaðar og almenna markaðarins fyrir alla í raun og veru.“
Willum Þór segir alveg mega hugsa sér færnismat fyrir sjötuga og eldri sem geti starfað á heilbrigðisstofnunum. Í rökstuðningi með breytingunum segir að ljóst sé að margir heilbrigðisstarfsmenn verði sjötugir á næstunni ekki hvað síst hjúkrunarfræðingar og sjúkraliðar þar sem þegar sé mikill skortur á fagfólki.
„Ég var nú bara fyrst og fremst mátti ekki vera að því að bíða og vildi hreyfa við málinu. Umræðan hefur leitt til þess sko að við ætlum að fara að leysa alla mönnun í heilbrigðiskerfinu og það er ekki endilega málið. Það að gera þetta sem að kannski léttir aðeins til.
Það breytir því ekki að við þurfum að opna á og hvetja aðgengi ungs fólks og fjölga í þessum stærstu stéttum það liggur alveg fyrir.“
Í kynningu á málinu segir að áfram verði skylt að segja fólki upp um sjötugt en að heimilt verði að ráða það aftur með nýjum ráðningarsamningi til sjötíu og fimm ára. aldurs. Þá verði skylt að segja fólki upp.