Kjörbúðarkonan er sterk skáldsaga þar sem aðalpersónan er áhugarverðasti þáttur sögunnar, viðkunnaleg og um leið „forvitnilega“ öðruvísi. Þetta segir Melkorka Gunborg Briansdóttir um skáldsögu Sayaka Murata.


Melkorka Gunborg Briansdóttir skrifar: 

„Kjörbúðin er full af hljóðum. Hringingin í bjöllunni við dyrnar þegar viðskiptavinir koma inn, raddir ungra sjónvarpsstirna sem auglýsa nýjan varning í hljóðkerfi verslunarinnar, köll starfsfólksins, pípið í strikamerkjaskannanum, daufir dynkir þegar vörur eru lagðar í körfur, skrjáf í brauðpokum og skellir í skóhælum á gangi um búðina - allt blandast þetta saman í kjörbúðarhljóminn sem gælir án afláts við hljóðhimnurnar í mér.“ 

Svo hljóða upphafsorð bókarinnar Kjörbúðarkonan eftir japanska rithöfundinn Sayaka Murata, en hún kom fyrst út á frummálinu árið 2016. Kjörbúðarkonan er nýjasta viðbótin í áskriftarröð Angústúru, en hún kom út fyrr á þessu ári í íslenskri þýðingu Elísu Bjargar Þorsteinsdóttur. 

Höfundurinn Sayaka Murata er margverðlaunuð og vel þekkt í heimalandinu Japan. Kjörbúðarkonan hreppti hin virtu Akutagawa-verðlaun árið 2016 og er tíunda skáldsaga Murata, en jafnframt sú fyrsta sem birtist vestrænum lesendum í enskri þýðingu árið 2018. Með henni skaust Murata upp á hinn alþjóðlega stjörnuhiminn, en síðan hefur Kjörbúðarkonan verið þýdd á 37 tungumál - og nú einnig á íslensku. 

Titill bókarinnar er blátt áfram og lýsandi fyrir innihaldið. Sögumaður hennar og aðalpersóna er hin 36 ára gamla Keiko Furukura, starfsmaður í kjörbúðinni Smile Mart sem er staðsett í björtum glerkassa við neðanjarðarlestastöð. Furukura er einhleyp og barnlaus, og hefur unnið hlutastarf í þessari sömu kjörbúð í átján ár, eða allt frá því að búðin opnaði. Taktur kjörbúðarinnar er henni því vel kunnugur – hún er langreyndasti starfsmaðurinn á stað þar sem fáir stoppa lengi við, en flestir samstarfsmenn hennar eru innflytjendur, húsmæður eða háskólastúdentar. 

Þó Furukura mæti ítrekað fordómum fólks sem kona í láglaunastarfi er hún ekki óánægð með hlutskipti sitt. Þvert á móti vill hún hvergi annars staðar vera en í kjörbúðinni, þar sem hún gjörþekkir allt. Henni líður vel í vinnunni, tekur sér aldrei frí heldur vinnur um áramótin á meðan hinir starfsmennirnir eru heima með fjölskyldum sínum. Það er henni þó ekki á móti skapi, því kjörbúðin á hug hennar allan, í orðsins fyllstu merkingu. Þegar Furukura er heima hjá sér hugsar hún um kjörbúðina og þegar hún leggst á svefnmottuna sína á kvöldin heyrir hún hljóð kjörbúðarinnar. Lesandanum er fljótlega gert ljóst að Keiko Furukura er enginn venjulegur kjörbúðarstarfsmaður heldur hrein og bein ástríðumanneskja. 

Frá barnsaldri hefur Furukura verið utanvelta í samfélaginu, talin öðruvísi. Hún skilur ekki þá óskrifuðu handbók sem allir í kringum hana virðast lifa eftir, hefur aðrar skoðanir en flestir og passar ekki inn í hefðbundið mót samfélagsins. Hún vill ekki giftast og hefur engan áhuga á barneignum, foreldrum sínum og systur til mikils ama. Til að geðjast fólkinu í kringum sig hermir hún eftir talsmáta þeirra og hegðun, til að falla þeim betur í geð og vera talin „venjuleg.“ 

Í kjörbúðinni er hins vegar annað uppi á teningnum, því þar er til staðar hnitmiðuð starfsmannahandbók sem Furukura getur fylgt. Allar reglurnar eru skrifaðar út og þeim er auðvelt að fylgja; allir klæðast sömu einkennisbúningunum og nota sömu kurteisu frasana, nokkuð sem Furukura á auðvelt með að tileinka sér. Það er aðeins innan kjörbúðarinnar sem henni finnst hún „venjuleg manneskja“ innan gæsalappa, mikilvægur hlekkur í gangverki samfélagsins sem hefur tilgang. 

„Jafnskjótt og við vorum komin í búninginn vorumvið öll jöfn, óháð kyni, aldri og þjóðerni – búðarfólk, öll sem eitt.“ 

Þrátt fyrir ánægju Furukura með líf sitt hefur fólkið í kringum hana þungar áhyggjur. Fjölskyldu hennar og vinum þykir löngu orðið tímabært að hún taki næstu skref, hætti að vinna í kjörbúðinni og finni sér maka, með öðrum orðum vonast þau til að hún „læknist“ af sérvisku sinni og taki virkan þátt í hefðbundnu japönsku samfélagi. Hún er aðskotahlutur í samfélaginu sem ógift kona á fertugsaldri í lausavinnu, óþægilegt frávik sem fólk veit ekki hvar það á að staðsetja. Til að reyna að gera samfélaginu til geðs en um leið virða eigin langanir tekur Furukura málið í sínar eigin hendur. Úr verður óvænt og nánast súrrealísk atburðarás, í senn kómísk og harmræn. 

Kjörbúðarkonan er sterk skáldsaga. Stíllinn er knappur, skýr og afdráttarlaus. Þýðing Elísu Bjargar er góð og þægileg aflestrar. Bókin er aðeins rúmar 130 blaðsíður og auðlesin. 

Sögumannsröddin er sannfærandi og áhugaverð, en á köflum nokkuð köld, endurtekningasöm og hlutlaus. Þetta kemur þó ekki í veg fyrir samúð lesandans með aðalpersónunni Furukura, sem hefur þvert á móti sérstakan sjarma í heiðarleika sínum og sérvisku. Aðalpersónan Furukura er í raun áhugaverðasti þáttur sögunnar, dregin upp á heildstæðan hátt, viðkunnanleg og um leið forvitnilega „öðruvísi.“ Lesandinn dregst inn í hugarheim hennar, allt frá því að hún var barn, en veit þó aldrei alveg hvar hann hefur hana, því stundum er hún á mörkunum að vera ónotalega aftengd félagslegu umhverfi sínu. 

Á þennan hátt tekst höfundinum Murata þó listilega að snúa dæminu við. Í gegnum persónu Furukura, sem er af öllum álitin óvenjuleg, sýnir Murata fram á það hve undarlegt fólk sem telur sig „venjulegt“ getur verið. Hið „venjulega“ samfélag verður í meðförum Murata í raun fáránlegt, í hugsanagangi sínum og lífsmynstri, kreddum, þröngsýni og íhaldssemi. 

Kjörbúð hljómar kannski ekki eins og spennandi staður til að dvelja á, en hún er það sannarlega í meðförum Sayaka Murata. Sögusviðið, japanska kjörbúðin Smile Mart er á áhugaverðan hátt í senn kunnugleg og framandi fyrir íslenskan lesanda. Þar eru annars konar vörur á boðstólum en við eigum að venjast, en líka aðrar reglur og hegðunarmynstur. Starfsmenn kjörbúðarinnar ganga allir í gegnum stífa þjálfun, þurfa að klæðast einkennisbúningi, beita röddinni á ákveðinn hátt og tala til viðskiptavina af ítrustu kurteisi og þjónustulund. 

Sögusvið kjörbúðarinnar verður hér að afmörkuðum heimi, sem hefur sinn eigin takt, þarfir og lögmál, en líka hljóð og lykt. Hún verður nánast heillandi, eins og sérstakt gangverk eða líkami þar sem allir hlutar hennar þurfa að starfa í takt. 

Kjörbúðarkonan er ekki síst áhugaverður samfélagsspegill. Hún fangar andrúmsloftið í japönskum kjörbúðum, svokölluðum konbini, sem er stytting á enska hugtakinu convenience store, sem eru úti um allt í Japan, nánast á hverju einasta götuhorni. Þær eru flestar opnar allan sólarhringinn, lýsa í mykrinu og þar er alltaf heitt á könnunni. Sjálf vann höfundurinn Sayaka Murata í slíkri konbini-kjörbúð í nær tvo áratugi, einnig í hlutastarfi og á sama aldri og skáldsagnapersónan Keiko Furukura. Allar skáldsögur sínar skrifaði Sayaka Murata meðfram störfum sínum í kjörbúðinni, gjarnan á næturnar þegar hún var ekki á vakt. Bækur Murata hverfast gjarnan um svipuð viðfangsefni, afleiðingar þess að passa ekki inn í íhaldssamt samfélag, sérstaklega hvað varðar hlutverk kynjanna, foreldrahlutverkið og hugmyndir fólks um kynlíf. Hún segir Japani hafa strangar hugmyndir um hvernig fólk eigi að haga lífi sínu, en að það sé vinsælt umfjöllunarefni japanskra rithöfunda. 

Af Kjörbúðarkonunni að dæma er á ferðinni áhugaverður höfundur - vonandi fá íslenskir lesendur að njóta fleiri verka hennar í framtíðinni.