Í fyrsta sinn á Íslandi hafa borist niðurstöður af flugi og ferðaháttum sjósvalna og skrofa sem eru næturfuglar sem hafast við í Vestmannaeyjum hluta árs. Einn minnsti GPS-sendir sem sögur fara af gefur vísindamönnum upplýsingar um ferðir fuglanna.
Vísindamenn vilja vita meira um háttalag sjósvölunnar, skrofunnar og stormsvölunnar við Ísland. Allar eiga þær það sameiginlegt að halda sig í Vestmannaeyjum hluta árs en þess utan fara þær víða. Niðurstöður eru þegar farnar að berast af ferðum sjósvölunnar og skrofunnar en tíðindi berast af stormsvölunni síðsumars.
Erpur Snær Hansen er forstöðumaður Náttúrustofu Suðurlands.
„Þetta hefur aldrei verið gert áður á Íslandi og við erum í rauninni að kortleggja fæðusvæði þessara tegunda.“
Tegundirnar þrjár eru skyldar og eru næturfuglar. GPS tæki sem sett er á svölurnar er aðeins 0,95 grömm og minnsta tæki sinnar tegundar sem til er, að sögn Erps.
„Þær koma bara inn að landi í úteyjum Vestmannaeyja að nóttunni þannig að þær sjást nú lítið annars staðar nema jú menn geta séð skrofu við Garðsskagavita en þær búa neðanjarðar og eiga sér mjög sérkennilega lífshætti. Þær fljúga svolítið eins og leðurblökur svölurnar og eru mjög svona dularfullar á margan hátt.“
Niðurstöðurnar nú sýna hvað fuglarnir aðhafast að sumarlagi. Sjósvalan á fæðuöflunarsvæði í landgrunnskantinum vestur af eyjum. Einnig er verið að kanna fæðuvalið með DNA aðferðum. Sjósvölurnar leita stundum langt yfir skammt í fæðuleitinni.
„En svo tók ein upp á því að fara alla leið til Rockall sem er 600 kílómetra í suður og þær fara ansi víða. Þær eru komnar upp á Atlantshafshrygg þar sem stórhvelin eru og þannig að þær fara í suður en eru á mjög stóru svæði.“
Talsvert er fyrir því haft að setja sendana á næturfuglana.
„Það er dálítið vesen því þær búa neðanjarðar og við þurfum að finna þær og grafa þær út og finna þær. Við spilum hljóðið þeirra og þær svara okkur og þá vitum við hvar þær eiga heima og það er þrautin þyngri að komast inn og ná þeim og setja á þær tækin á.“
Tækin eru ekki með senda svo það þarf að ná fuglunum aftur til að lesa gögnin. Einnig eru settir dægurritar á fuglana. Vetrarheimkynnin eru á suðurhveli: Sjósvalan fer bæði til Afríku og Brasilíu. Hluti hópsins til Namibíu. Skrofan fer til Argentínu. Erpur segir tegundirnar fámennar. Sjósvölum hafi fækkað á Atlantshafinu. Mikilvægt sé að fylgjast með því hvað sé að gerast hjá þeim svölum sem hér búa og bera stormsvölur og sjósvölur saman.