Sandra Sigurðardóttir, markvörður Íslands, er á sínu fjórða Evrópumóti með Íslandi. Hún fór fyrst með landsliðinu árið 2009 til Finnlands en spilaði ekki EM-leik fyrr en gegn Belgíu fyrir viku. Þar til þá sat hún sem fastast á varamannabekknum í leikjum Íslands á EM. RÚV settist niður með Söndru á frídegi leikmanna í gær. Á morgun er síðasti leikur liðsins í D-riðli og þá ræðst hvort liðið kemst í átta liða úrslit.
„Ég er náttúrulega ótrúlega stolt og mjög glöð að vera á þessum stað. Ég klappa mér alveg á bakið sjálf fyrir þrautseigjuna í gegnum öll þessi ár. Það hefur alveg reynt á og gengið ýmislegt á,“ segir Sandra um að vera loks komin í byrjunarlið Íslands á stórmóti. „Ég er mjög ánægð að vera hér í dag. Bara nýt þess í botn.“
Á EM í Hollandi tapaði Ísland öllum sínum leikjum og var fallið úr leik fyrir síðustu umferðina. Þrátt fyrir það kom Sandra ekkert við sögu á mótinu. „Síðasta EM var auðvitað upplifun en var fyrir mig persónulega ógeðslega erfitt. Ég viðurkenni það alveg,“ segir Sandra. „Hins vegar, í dag, er það svolítíð þar. Á einhverjum tímapunkti ákvað ég að leyfa því að vera bara þar. Þetta var það sem gerðist og ég get ekki breytt því.“
Þó Sandra hafi sloppið við meiðsli á mótinu þá hafa báðir varamarkmenn liðsins, Cecilía Rán Rúnarsdóttir og Telma Ívarsdóttir, meiðst á æfingu. „Það er alveg smá óþægilegt. Þetta eykur alveg stressfaktorinn. Hvað ef og allt þetta. Hins vegar þá er ég alveg ágæt í því að ýta því til hliðar. Þetta er eitthvað sem ég get ekki stjórnað og ég verð bara að hugsa um mig,“ segir Sandra. „Þetta er náttúrulega ótrúlega súrt fyrir þær báðar persónulega. Mér finnst erfitt að sjá það.“
Viðtalið við Söndur má sjá í heild sinni í spilaranum hér að ofan. Ísland mætir Frakklandi á morgun klukkan 19. Leikurinn verður í beinni útsendingu á RÚV og hefst EM stofan klukkan 15:15.