Danskir skólar mega ekki nota krómbók, algengar fartölvur frá Google, í kennslu þegar nemendur snúa aftur eftir sumarfrí. Þetta er í samræmi við ákvörðun dönsku persónuverndarstofnunarinnar. Slíkar tölvur eru þó notaðar í grunnskólum hér á landi.
Formaður Kennarasambands Íslands segir að mikið rask yrði á kennslu hér á landi ef sambærileg ákvörðun yrði tekin á Íslandi.
Ástæða dönsku persónuverndarstofnunarinnar er sú að gögn sem safnað er í gegnum Workspace, verkbúnað Google í krómbókum, eru geymd í Bandaríkjunum, sem brýtur í bága við evrópulöggjöf, að mati dönsku stofnunarinnar. Ekki sé hægt að útiloka það að persónuupplýsingar nemenda endi í röngum höndum.
Danska persónuverndarstofnunin tók til athugunar mál frá Helsingjaeyri og sem stendur gildir bannið aðeins þar. Stofnunin hefur hins vegar varað önnur sveitarfélög við að reglurnar ættu líka að gilda þar og að þau þurfi að grípa til viðeigandi aðgerða.
Jesper Lund, formaður IT Policy Association, segir í samtali við Politiken að ákvörðun persónuverndarstofnunarinnar væri afar ströng túlkun á úrskurði Evrópudómstólsins sem felldi úr gildi samkomulag milli Evrópusambandsins og Bandaríkjanna um tilfærslu gagna og persónuupplýsinga milli svæða. Ákvörðunin byggði á þeirri röksemdarfærslu að samkomulagið gerði Bandarískum stjórnvöldum kleift að fá aðgang að evrópskum upplýsingum.
Meirihluti íslenskra skóla noti krómbók
„Ég myndi segja að krómbók væri það tæki sem er algengast að við finnum í íslenskum skólum. Það varð bylgja í covid, að skólar voru að uppfæra hratt tæki sem geta nýtt veflausnir og stafrænar lausnir,“ segir Magnús Þór Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands.
„Á þeim tíma tók Reykjavíkurborg stór skref áfram. Ég myndi segja það að svona tveir þriðju til þrír fjórðu af íslenskum skólum, sem hafa verið að nýta sér krómbók í vinnu,“ segir hann.
Magnús Þór segir að stafrænar lausnir séu stór partur af skólastarfi og mikilvægt sé að undirbúa nemendur fyrir stafrænan heim. Það sé brýnt mál að samrýma það að persónuvernd og hinn stafræni heimur geti fallið að skólastarfi.
Íslendingar hafi veri mjög framarlega í þróun á stafrænum lausnum. „Við höfum verið með mjög öfluga skóla og öflug verkefni sem miðast að því að flytja nám að mörgu leyti inn í stafrænan heim,“ segir Magnús.
„Þannig ef svipuð ákvörðun kæmi núna frá íslenskum stjórnvöldum eða Persónuvernd, það myndi þýða það að við yrðum að kippa til baka verkefnum sem er kannski búið að vera að þróa í tvö til þrjú ár og flytja til baka í heim sem ég er ekki viss um að við viljum vera í.“