Barnafjölskyldur sem búa við fátækt á Íslandi kvíða haustinu og útgjöldum tengdum skólabyrjun og frístundum. Verðbólgan hefur ekki verið meiri síðan skömmu eftir hrun. Einstæðar mæður á örorkulífeyri óttast það í hverjum mánuði að þær nái ekki endum saman og segja tekjurnar duga skammt.
Vísitala neysluverðs hækkaði um 1,4 prósent milli mánaða í síðasta mánuði og ársverðbólgan mældist 8,8 prósent. Hærri hefur hún ekki mælst síðan rétt eftir hrun, í október 2009. Mest áhrif á verðbólguna í síðasta mánuði hafði reiknuð húsaleiga, verð á bensínu og olíu og verð á matarkörfunni.
Leiguverð hækkar með hverjum mánuðinum
Vilborg Oddsdóttir, talsmaður Hjálparstarfs kirkjunnar, segir að íþyngjandi húsaleiga sé eitt stærsta áhyggjuefni fólks sem býr við fátækt á Íslandi, hvort sem það leigir á almennum markaði eða hjá sveitarfélögum. „Því að flestir leigjendur eru með sína húsaleigusamninga verðtryggða, þannig að þeir hækka mánaðarlega. Og það er mjög erfitt að sjá fram á það að eftir áramót verðir þú kominn með mörg þúsund króna hækkun. Og svo er það maturinn, fólk kvartar mikið undan því,“ segir hún. Margir sjái nú fram á að þurfa að neita sér um alla afþreyingu og gæðastundir með börnum, til að ná endum saman.
Búist er við að verðbólga nái hámarki í lok sumars eða í haust. Vilborg segir að haustið séu kvíðvænlegur tími fyrir barnafjölskyldur sem búa við fátækt. „Og núna þegar fólk á minna á milli handanna þá er erfitt að hefja skólana. Þrátt fyrir að skólar séu með blýanta og penna, þá er það skólataskan og sundbolurinn. Og ef þú ert í framhaldsskóla þá eru það dýrar bækur og annað slíkt,“ segir hún.
Öryrkjar og innflytjendur verst staddir
Vilborg segir neyð blasa við stórum hópi fólks á örorkulífeyri og innflytjendum, sem almennt hafi lægstu launin og borgi gjarnan hærri húsaleigu en aðrir. „Þetta eru þeir hópar sem ég hef stórkostlegar áhyggjur af núna næsta vetur, ef það verður ekki eitthvað gert. Ríkisvaldið þyrfti að taka til hjá sér og við þyrftum að segja hvernig samfélagi við viljum búa í,“ segir hún. Stjórnvöld verði að horfast í augu við fátæktarvandann og setja sér skýr markmið til að takast á við hann.
Særir stoltið að biðja um hjálp
Birna Kristín Sigurjónsdóttir er einstæð móðir á örorkulífeyri, og sér ein fyrir dóttur sinni, Viktoríu. Hún segir að leigan hafi hækkað hratt á síðustu mánuðum og hækki enn. Þá segist hún óttast það í hverjum mánuði að hún nái ekki endum saman, og kvíðir haustinu sérstaklega. „Ég finn fyrir kvíða fyrir öllu sem fylgir barni. Það eru frístundagjöld, skólamáltíðir, fatakaup. Þetta hefur allt hækkað svo mikið, og þegar maður þarf að sjá fyrir þessu öllu einn, þá er þetta svo mikið og hefur mjög kvíðavaldandi áhrif,“ segir hún. Verðhækkanirnar séu áþreifanlegar og hún þurfi að fara mjög sparlega með peningana.
„Ég þarf mikið að passa mig hvað ég versla, við getum ekki leyft okkur neitt mjög flott. Við gerum ekki rosalega oft eitthvað saman, nema nýtum tilboð sem eru í gangi ef ég hef getað sparað. Þetta hefur rosalega mikil áhrif á okkar líf,“ segir hún.
Birna segir að þegar kreppi að geti hún sem betur fer gjarnan leitað til foreldra sinna. „Þau hjálpa þegar þau geta, en auðvitað vil ég geta séð um okkur sjálf. Það er erfitt fyrir stoltið að biðja um hjálp.“
Örorkulífeyrir dugar skammt
Hildur Oddsdóttir er í svipaðri stöðu, einstæð móðir á örorkulífeyri. Hún segir að það sé alltaf fyrr og fyrr í hverjum mánuði sem peningarnir klárist. „Það má ekkert rugga bátnum, það má ekkert út af bregða. En nú gerist það hver mánaðamót,“ segir hún. „Maður náði kannski að ströggla í þrjár vikur, en maður er farinn að finna að þetta eru kannski tvær vikur núna,“ bætir hún við. Hún telur að stjórnvöld líti fram hjá vandanum og undrar sig á því að örorkulífeyri hafi ekki hækkað meira en raun ber vitni.