Spánverjar og Danir mættust í hreinum úrslitaleik um sæti í átta liða úrslitum á EM í fótbolta í kvöld. Danir þurftu að vinna til að fara áfram en Spánverjum dugði jafntefli til að hreppa annað sæti B-riðils.
Spánverjar voru mikið mun meira með boltann í fyrri hálfleik en náðu ekki að skapa sér færi fyrr en um miðbik hans. Eftir það voru Spánverjar mun sterkari aðilinn. Þeim tókst þó illa að skapa sér opin færi. Ekki var að sjá að Danir þyrftu á sigri í leiknum að halda og var lið þeirra mjög bitlaust fram á við.
Sama var uppi á teningnum í síðari hálfleik. Spánverjar sóttu og sóttu en gekk illa að koma sér í færi. Leikmenn liðsins reyndu mikið af fyrirgjöfum sem flestar voru skallaðar í burtu af varnarmönnum Danmerkur. Danska liðið gerði sig ekki líklegt til að skora markið sem það þurfti nauðsynlega á að halda. Þær dönsku fengu þó ágætt færi eftir skyndisókn en skot Nadia Nadim var varið. Á 90. mínútu kom loks mark í leikinn. Olga Carmona átti þá fyrirgjöf sem Marta Cardona skallaði lystilega í markið og Spánverjar komnir áfram í átta liða úrslit.
Í átta liða úrslitum mætir Spánn Englendingum sem eru á heimavelli. Lið þeirra er á miklu skriði, vann alla leiki sína í A-riðli, þar á meðal Noreg, 8-0. Leikurinn verður klukkan 19 á miðvikudag í beinni útsendingu á RÚV.