Heilbrigðisráðherra segir mikilvægt að afnema refsingu veikasta hóps fíkniefnaneytenda vegna neysluskammta. Hann vonast til að vinna starfshóps, sem undirbýr hvernig best verði að haga gerð frumvarps þar um, verði til þess að sátt fáist. Málið sé vissulega viðkvæmt og breyta þurfi lögum um ávana og fíkniefni.
Styrr hefur staðið um áform frumvarps um afnám refsinga við notkun neysluskammta fíkniefna hjá ákveðnum hópi. Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra segir málið hafa farið margsinnis fyrir þingið án þess að ná í gegn. Hann hafi ákveðið að víðtækt samráð þyrfti áður en farið væri með erindið aftur fyrir Alþingi. Hingað til hafi verið rætt um afglæpavæðingu neysluskammta en nú verði rætt um afnám refsinga við undirbúning, áður en frumvarp verði lagt fyrir Alþingi.
„Verkefnið er hins vegar alveg það sama og hvað sem nafnið verður nú á endanum þá er verkefnið að taka betur utan um þennan hóp sem er veikastur af þessari fíkn og veita honum þá þjónustu sem hann þarf á að halda.“
„Hvernig ætlið þið að ákveða hver má vera með neysluskammt og hver ekki? Gengur þetta í framkvæmd?“ „Auðvitað í dag er það þannig að lög um ávana- og fíkniefni eru með öllu óheimil á íslensku forráðasvæði og það er auðvitað það sem að hefur hindrað framgang málsins. Það er þessi skilgreining á neysluskammti. Það er auðvitað stóra verkefni þessa hóps. Þess vegna meðal annars eru lögreglan og ríkissaksóknari og ríkislögreglustjóri í þessum hópi, ásamt fulltrúum notenda og fanga og embættis landlæknis og fleiri aðila og þeir eru að fást við þetta og þetta kallar á lagabreytingu.“