Í dag kom fyrsta skemmtiferðaskipið til Skagafjarðar í nær hálfa öld. Sauðkrækingar fagna komu þess og bærinn skrýddist íslenskum fánum af þessu tilefni.
Hafa unnið að því að fá skipin til hafnar
Það var móttökunefnd Skagfirðinga sem beið eftir fyrsta skemmtiferðaskipinu sem leggst að Sauðárkrókshöfn síðan 1977.
Einar E. Einarsson, formaður byggðaráðs Skagafjarðar, segir sveitarfélagið hafa unnið að því markvisst frá 2015 að fá skemmtiferðaskipin að koma til hafnar á Sauðárkróki. „Markmiðið er auðvitað að efla ferðaþjónustu í Skagafirði.“
Von á fleirum næsta sumar
Skipið Hanseatic Nature kom í land með um tvöhundruð farþega en von er á alls fjórum skipum í sumar, það stærsta með tæplega 800 farþega.
Við vonum að þau verði fleiri þegar fram í sækir. Það er búið að bóka alla vega sjö á næsta ári og byrjað að bóka fyrir 2024 þannig að þetta lítur bara vel út og við erum tilbúin að taka á móti fleirum,“ segir Einar.
Stærstu skipin kæmust ekki í höfnina
Hafnarstarfsmenn eru ekki óvanir að taka á móti skipum af þessari stærð enda flutningaskipin svipað stór.
Dagur Þór Baldvinsson, hafnarstjóri Skagafjarðarhafna, segir að höfnin gæti ekki tekið á móti stærstu skemmtiferðaskipunum. „Þau geta komið á akkeri. Við erum náttúrulega mest í að markaðssetja fyrir þessi litlu skip í svipaðri stærðargráðu og þetta sem er hér í dag.“
Mikið hefur verið rætt um mikla mengum sem kemur af skipunum en Einar segir það ekki ástæðu til að taka ekki á móti þeim. „En það er auðvitað verið að vinna í þeim málum og við gefum okkur það að það þróist til betri vegar eftir því sem árin líða.“
Gestir sem og bæjarbúar spenntir
Þýsku ferðamennirnir voru kátir að byrja Íslandsreisuna í Skagafirði.
Claus-Peter Kuhl, var að koma í annað sinn til Íslands, síðast fyrir 18 árum. Hann segir Ísland vera eina fallegustu eyju heims. „Ég hef séð og komið á margar eyjur, en hér er afar fallegt.“
Christiane Ehrig var að koma í sína fyrstu Íslandsferð og var spennt. Hún var á leiðinni til að skoða torfbæ og íslenska hesta. Þar á eftir segist hún ætla að skoða foss.
Einar segir bæjarbúa mjög spennta yfir komu skipsins. Búið er að hengja íslenska fána á flesta ljósastaura í aðalgötu Sauðárkróks. „Já,það er bara fagna allir Skagfirðingar komu skemmtiferðaskipsins.“