Íslensk og erlend dýraverndunarsamtök, þar á meðal Sea Shepherd, boðuðu til mótmælafundar á Austurvelli í dag þar sem þess var krafist að hvalveiðum verði hætt. Hvalveiðar hófust hér við land í síðasta mánuði eftir fjögurra ára hlé. Fundargestir gagnrýndu stefnu stjórnvalda í málaflokknum.

 

Valgerður Árnadóttir, formaður Samtaka grænkera, sagðist finna fyrir heilmiklum stuðning fyrir málstaðnum í samfélaginu og á samfélagsmiðla.

„Svo höfum við sé kannanir frá Maskínu sem sýna að 63 prósent Íslendinga eru á móti hvalveiðum og við erum bara lítill hluti af því fólki,“ sagði Valgerður í samtali við fréttastofu. 

Hún gefur lítið í orð Kristjáns Loftssonar, forstjóra Hvals hf. um að umræðan um hvalveiðar sé dauð. „Ég myndi ekki taka mark á því frá honum. Hann er eini maðurinn í heimi í dag sem er að veiða hvali. Og það er þess vegna sem við erum hér. Ef hann væri ekki að þessu þá þyrftum við ekki að mótmæla.“

Edda Elísabet Magnúsdóttir, sjávarlíffræðingur og lektor við HÍ, var á meðal mótmælenda og sagðist vilja heyra betri rök fyrir því hvers vegna við séum að taka af þessum villtu stofnum með það fyrir augum að lífbreytileiki jarðar fer sífellt hnignandi. „Náttúran er í bágu ástandi vegna okkar og því er ofboðslega erfitt að skilja  af hverju við erum að veiða dýr sem við virðumst bara ekki þurfa,“ sagði Edda.