Tveir grískir ferðalangar sigldu hingað til lands á svokölluðum RIB-hraðbáti alla leið frá Belgíu og förinni er svo heitið til Kanada. Þeir vilja með siglingunni vekja athygli á loftslagsbreytingum.
Báturinn er tíu metra langur og ekki ósvipaður þeim sem eru notaðir í hvalaskoðun hér á landi. RIB-bátar eru hraðskreiðir, harðbotna slöngubátar og í öldugangi fá þeir á sig kröftugt högg. Thomas og Konstantinos, tannlæknir og lyfjafræðingur, með ástríðu fyrir siglingum, lögðu af stað frá Belgíu 4. júlí og dvelja hér á landi í nokkra daga til að undirbúa framhaldið.
Sjávarútvegs- og ferðamálaráðuneyti Grikklands styðja leiðangurinn og markmiðið er að sýna að heimskautaís hafi bráðnað nógu mikið til þess að þeir komist alla leið á bátnum.
„Við ætlum að sigla næst til Grænlands. Byrjum á austurströndinni, fikrum okkur svo meðfram suðurströndinni, svo meðfram vesturströndinni eins langt norður og við komumst og siglum þaðan norðvesturleiðina yfir til Kanada,“ segir Konstantinos.
Þeir segja að leiðangri sem þessum fylgi mikið álag, en þeir séu vel búnir. „Eins og er vegna loftslagsbreytinga er þetta ágætlega öruggt. Báturinn er einn sá allra besti í sínum gæðaflokki. Þá gerir hop heimskautaíss það að verkum að við ættum að eiga greiða leið um norðvesturleiðina,“ segir Konstantinos. „En eins og við vitum getur maður aldrei verið alveg viss þegar hafið er annars vegar,“ bætir Thomas við.
En hvernig dettur þeim þetta í hug?
„Við viljum senda skýr skilaboð á alla heimsbyggðina varðandi loftslagsbreytingar og hin gríðarlega alvarlegu áhrif hnattrænnar hlýnunar, sem eru svo sýnileg á þessum slóðum,“ svarar Thomas.