Flugfarþegar hafa gjarnan meiri réttindi en þeir telja, þegar flugferðum er aflýst eða frestað. Þetta segir deildarstjóri hjá Samgöngustofu. Þrisvar sinnum fleiri kvörtuðu til Samgöngustofu vegna flugraskana í júní heldur en í maí, og kvörtunum fjölgar enn.

Mönnunarvandi á flugvöllum um allan heim hefur valdið því að fjölda flugferða hefur verið frestað eða aflýst og fólk á faraldsfæti orðið strandaglópar og stundum þurft að bóka nýtt flug. Samgöngustofa hefur meðal annars það hlutverk að upplýsa fólk um réttindi þess þegar kemur að röskun á flugi og hjálpa því að sækja bætur ef þess þarf, og hefur þurft að gera meira af því í sumar en áður. 

Gunnar Geir Gunnarsson, deildarstjóri hjá Samgöngustofu, segir áhrifin augljós á síðustu sex vikum „Í júní og júlí er búið að vera mikið álag, bæði í síma og tölvupósti. Bæði fleiri kvartanir og fyrirspurnir. Til að mynda voru þrefalt fleiri kvartanir í júní heldur en í maí og við sjáum svipað stefna í í júlí,“ segir hann. 

En hvaða réttindi eiga flugfarþegar?

Ef flugi er aflýst eða farþega neitað um far ber flugfélagi að veita ákveðna þjónustu þar til farþegi getur haldið áfram för sinni. Svo sem mat, aðstöðu til að hringja eða eiga önnur samskipti, gistingu ef þörf er á og ferð á gististað. Þá á farþegi rétt á skaðabótum, allt að 600 evrum, og val á milli endurgreiðslu og nýs farmiða.

Ef flugi er seinkað þarf flugfélag að veita sambærilega þjónustu og við aflýsingu. Ef seinkun nær þremur klukkustundum ber flugfélagi að greiða skaðabætur og ef seinkun nær 5 klukkustundum á farþegi einnig rétt á endurgreiðslu eða nýjum farmiða.  

Upplýsingar misaðgengilegar

Gunnar segir að vegna álags taki það flugfélögin nú óvenjulangan tíma að bregðast við kvörtunum og greiða bætur eða bjóða nýja farmiða. „Meginlínan held ég að sé sú að fólk geri sér ekki alveg grein fyrir réttindum. Flugfélög eiga að upplýsa fólk um það en það getur verið gert með smáu letri eða vísun í reglugerð sem flugfélag veit að fólk les ekki endilega,“  segir hann.