Nýverið var eitt af meistaraverkum Halldórs Laxness, Salka Valka, gefið út í Bandaríkjunum í nýrri þýðingu. Af því tilefni er stór grein um Halldór í nýjasta tímariti New Yorker þar sem meðal annars er farið yfir það hvers vegna Bandaríkjamenn hættu að gefa út bækur skáldsins á sínum tíma. Íslensk stjórnvöld höfðu meira að segja milligöngu þar um.

Halldór Guðmundsson rithöfundur gaf út ævisögu Halldórs Laxness árið 2004 og veit því meira um nóbelsskáldið en margur annar. Hann var gestur Síðdegisútvarpsins og ræddi þar um greinina sem birtist í New Yorker. 

„Ég þarf nú fyrst aðeins að kippa mér niður á jörðina af því það er nú ekki á hverjum degi sem verið er að vísa í mann í New Yorker,“ sagði Halldór hógvær í upphafi viðtals.

Skrýtið að gefa út metsölubók og hætta síðan 

Halldór útskýrir að við lok síðari heimsstyrjaldar og í upphafi kalda stríðsins hafi útgáfu bóka Laxness verið hætt í Bandaríkjunum. Það er síðan megininntak greinarinnar í New Yorker, þar sem einnig segir frá því hvernig leyniþjónustustofnanir í Bandaríkjunum hafi fylgst grannt með skáldinu. 

„Það er hálfrar aldar hlé, það gerist ekkert,“ segir Halldór og bætir við að árið 1946 hafi Sjálfstætt fólk komið út í 400 þúsund eintökum í Bandaríkjunum. Eftir það hafi hins vegar ekkert verið gefið út í rúm 50 ár.

„Ég vann nú í bókaútgáfu og hef verið viðloðandi hana mjög lengi. Ég hef ekki enn hitt þann útgefanda sem gefur út og selur höfund í yfir 400 þúsund eintökum og segir síðan að hann ætli ekki að gera meira. Og þetta er svona spurningin sem menn hafa verið að velta fyrir sér.“

Íslensk stjórnvöld tóku þátt

Halldór segir að Laxness hafi verið fórnarlamb kalda stríðsins en að hann hafi þó á sinn hátt verið gerandi í því líka. Hann gaf enda út bókina Atómstöðina árið 1948, um það leyti sem samningar náðust um veru Bandaríkjahers á Keflavíkurflugvelli. Atómstöðin kann að hafa farið öfugt ofan í bandaríska bókaútgefendur af þeim sökum.

Ekki nóg með að útgefendur í Bandaríkjunum hafi verið áfram um að gefa ekki út bækur Laxness þá beitti alríkislögreglan í Bandaríkjunum miklum þrýstingi þar um og ræddi það meira að segja við íslensk stjórnvöld.

„Og það er náttúrulega þannig, eins og menn hafa bara séð í skjölum, að íslensk stjórnvöld og bandaríska sendinefndin hér, ræða hvernig hægt er að skaða orðstír skáldsins. Þetta er kalda stríðið alveg í hnotskurn, það eru leynileg plögg um þetta sem hafa legið fyrir hjá bandaríska utanríkisráðuneytinu. Menn eru bara að ræða þetta, hvernig getum við skaðað orðstír íslensks höfundar? Ímyndið ykkur ef þetta væri að gerast núna, Þórdís Kolbrún að hitta einhvern niðri í kínverska sendiráðinu bara: „Heyrðu, hvernig getum við eyðilagt hérna fyrir Jóni Kalmanni?” Það er alveg stórfurðulegt að sjá svona hluti,“ segir Halldór.

Náði eins hátt og hægt var að komast 

Svo langt gekk aðförin gegn nóbelsskáldinu að einn valdamesti maður Bandaríkjanna um miðja síðustu öld, J. Edgar Hoover, framkvæmdastjóri bandarísku alríkislögreglunnar, vissi af henni. Alríkislögreglan reyndi statt og stöðugt að grafa undan Laxness og skjöl frá þessum tíma þykja sanna þetta.

„Þetta leiðir til þess, og það er nú bandarískur háskólakennari, Chay Lemoine, sem hefur verið að reyna að tosa þessi skjöl úr kaununum, að það er farið að reyna að kanna höfundarlaun hans fyrir þetta stóra upplag [Sjálfstætt fólk] og hvort hann hafi borgað af því skatt. Og þeir telja að þeir geti skaðað trúverðugleika hans með því að rannsaka þetta og meira að segja Edgar Hoover var blandað í þessa rannsókn,“ segir Halldór.

Fylgdust með öllum ferðum Laxness

Og Laxness var því sem næst hundeltur af alríkislögreglunni. Halldór segir að það sé einna merkilegast við lestur skjala frá þessum tíma, því þau sýna hvað lögreglan var einbeitt í að koma fótum fyrir skáldið.

„Það sem manni finnst merkilegt þegar maður er að skoða þessi kaldastríðsgögn, eins leiðinleg og þau nú mörg eru, þetta er svo fáránlega „blatant“. Af því þetta heldur áfram, '57 þá var í einhverju stjórnarráðuneytinu í Washington sent út að nú sé Halldór Laxness kominn með leyfi til að koma til Ameríku. Hann var að vinna að Paradísarheimt og var búinn að fá leyfi til þess að koma. Og þá er sent út: „Vinsamlegast látið FBI vita og alla svona „local“ rannsakendur, svo við getum fylgst með öllum ferðum hans“,“ segir Halldór.

Mögulega einnig bókmenntalegar ástæður

Til viðbótar við þetta verður þó að nefna að til eru gögn, sem sögð eru sanna að útgefandi Halldórs í Bandaríkjunum, Alfred Knopf, hafi verið ráðið frá því af yfirlesurum sínum að gefa út bækur Laxness. Það kann því að hafa verið blanda beggja, bókmenntafræðilegra forsendna og pólitískra, að bækur Laxness hættu að koma út vestanhafs þar til undir lok síðustu aldar.

„Svo hefur Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson fornleifafræðingur fundið nokkuð merkilega pappíra úr gögnum Knopf, sem benda til þess að hann hafi haft yfirlesara sem mæltu gegn bókum Halldórs, mæltu semsagt ekki með þeim til útgáfu,“ segir Halldór.  

„Þannig það getur vel verið að hjá honum hafi verið hvort heldur er bókmenntalegar ástæður eða pólitískar ástæður eða eitthvað sambland af hvoru tveggja. En staðreyndin er sú, að í kringum nóbelsverðlaunin þá er ekki verið að gefa hann út. Það er það sem höfundurinn í New Yorker víkur að, þetta hlé sem er til '96 þegar Brad Leithauser nokkur skrifar grein um Sjálfstætt fólk, sem er bara svona eins og einhver maður hafi frelsast, og vakti mikla athygli og varð til þess að bókin var endurútgefin. Síðan þá hafa Bandaríkjamenn verið mjög duglegir við þetta.“

Laxness væri stærri

Spurður hvort arfleifð og ímynd Laxness í Bandaríkjunum væri öðruvísi ef bækur hans hefðu fengið að koma út, svarar Halldór því játandi. Erlendum höfundum hafi ekki verið gert hátt undir höfði í Bandaríkjunum og því hefði frægðarsól Laxness mögulega fengið að skína skærar ef hann hefði hlotið brautargengi þar sem höfundur. 

„Það er enn lítið gefið út af þýddum bókmenntum í Bandaríkjunum. Frægasta forlagið sem gefur út þýddar bókmenntir heitir Less than Three af því það eru minna en þrjú prósent bóka þýddar í Bandaríkjunum, það er meira að segja minna en eitt prósent,“ segir Halldór og bætir við:

„En það sem þó gerist þarna, eftir '98 og í framhaldi af grein Leithauser og játningu ýmissa bandarískra höfunda og menntamanna um hvað Laxness var góður höfundur, þá koma allar helstu bækurnar. Það eru þá núna að koma bækur sem aldrei hafa sést, þökk sé Philip Roughton þýðanda og forlaginu sem gefur þetta út núna, Archipelago Books.“

Heyra má viðtalið við Halldór í spilaranum að ofan en þátt Síðdegisútvarpsins í heild sinni má finna hér.