„Ég var leyndarmálið hennar“ 

Heiða varð ólétt sextán ára og ákvað að eignast barnið. Í því ferli var hún spurð um ýmsa sjúkdóma í fjölskyldunni, eins og sykursýki, og hún svaraði samviskusamlega, samkvæmt fjölskyldu foreldra sinna, „þar til kom að því að ég fattaði að ég hefði ekki hugmynd,“ segir hún enda grunlaus um sjúkdóma í fjölskyldunni sem hún er blóðskyld. Hún ákvað þá að hefja leit að blóðmóður sinni sem bar mjög fljótt árángur.

Líffræðileg móðir hennar var íslensk en bjó í Bandaríkjunum á þessum tíma. Heiða hafði samband og heimsótti hana stuttu síðar. Þeim samdi strax ágætlega. „Ég hélt það yrði meira drama, meiri tilfinningar en þegar upp er staðið var bara mjög gaman. Hún var mjög skemmtileg. Við hlógum saman en töluðum ekki mikið saman,“ segir Heiða.

Heiða átti erfitt með að nálgast hana og kynnast henni því móðir hennar gaf lítið af sér. „Þetta voru erfiðar aðstæður og erfiðir tímar, ég var leyndarmálið hennar alveg svakalega lengi. Fólk í hennar fjölskyldu vissi af bróður mínum en það vissi enginn af mér.“

„Get alveg eins sent jólasveininum bréf“

Heiða þráspurði hver faðir sinn væri og móðir hennar stóð fast á því að hann héti Monroe og byggi í Connecticut. En þær upplýsingar hjálpuðu Heiðu lítið. Það angraði hana meira með hverju árinu að þekkja ekki uppruna sinn.

Heiða rakst loks viðtal við konu sem hafði fundið föður sinn þegar hún var orðin töluvert eldri en Heiða. Hún setti sig í samband við konuna og var boðið í heimsókn.

Konan sagði Heiðu að hennar leið hefði verið að skrifa bréf til ákveðinnar stofnunnar og ef viðkomandi foreldri eða skyldmenni fyndist yrði haft samband við þann aðila. Ef hann kærði sig um væri bréfinu svarað, annars fengi maður ekkert að vita. Það leist Heiðu ekki á. „Ég hugsaði: Þetta get ég ekki gert. Ég get alveg eins sent jólasveininum á Norðurpólnum eitthvað bréf, ég get ekki bara setið og beðið eftir að einhverjum detti í hug að svara.“

„Fallegasta bréf sem ég hef fengið“

Með hjálp samtaka í Bandaríkjunum, sem aðstoða fólk í leit að uppruna sínum, komst Heiða loksins á sporið. Hún kemst að því eftir mikla leit í óvæntar áttir að hún er ekki Monroe heldur Sorvino.

Hún hafði samband við mann sem henni var bent á, sem reyndist vera frændi hennar. Hún útskýrði hver hún væri og í hvaða erindagjörðum og hann lét hana fá tölvupóstfang hjá hinum eina sanna blóðföður hennar.

Hún sendi föður sínum línu og hann svaraði loksins. Hann tjáði henni strax að hann kannaðist við að hafa verið á Íslandi á þessum tíma og gekkst við henni sem dóttur sinni. Það var mikill léttir fyrir Heiðu. „Það er eitt fallegasta bréf sem ég hef fengið og lesið. Þar er hann að gangast við því að hafa verið á Íslandi á þessum tíma,“ segir Heiða. Hann tjáði henni að hann myndi vel eftir blóðmóður Heiðu en sagðist ekki hafa haft hugmynd um að hann ætti dóttur.

Mögnuð tilfinning að sjá sig í öðru ljósi

Það var þungu fargi af Heiðu létt þegar hún loksins fann þennan föður sinn. „Að vera tæplega sextug og sjá sjálfa sig í öðru ljósi er alveg ótrúlega mögnuð tilfinning,“ segir hún.

Faðir hennar er ítalskur og heitir Antonio Sorvino en afi hennar og amma höfðu kynnst í Bandaríkjunum þar sem hann er alinn upp.

Í dag er Heiða mikils vísari um uppruna sinn og á í góðu sambandi við líffræðilegan föður sinn. Hún heimsótti hann í desember og svo kom hann hingað til lands með konunni sinni í júní. „Þau eiga tvær dætur og önnur þeirra á tvö svolítið fullorðin börn. Núna á hann allt í einu þrjú barnabörn í viðbót, sex barnabarnabörn og sjöunda á leiðinni,“ segir hún.

Heppnasta manneskja í heiminum

Tilfinningar Heiðu eru þó blendnar og hún viðurkennir að hún hefði viljað kynnast föður sínum fyrr. „Ég er leið yfir því að hafa svona lítinn tíma,“ segir hún.

En Heiða finnur líka fyrir miklu þakklæti. „Mér finnst væmið að þurfa að tala um það en mér líður eins og ég hljóti að vera heppnasta manneskjan á landinu, ef ekki í heimi. Núna er allt í heiminum rétt og ég veit hver ég er, börnin mín vita hver þau eru og öll þessi bið og pirringur, þetta vonleysi endaði bara svona brjálæðsielga vel. Kannski átti ég ekki að finna hann fyrr.“

Viktoría Hermannsdóttir ræddi við Heiðu B. Heiðarsdóttur í Segðu mér á Rás 1.