Tveir af þremur stærstu hluthöfum í Festi hf. greiddu fráfarandi stjórn ekki eitt einasta atkvæði á hluthafafundi fyrir hádegi. Endurkjörinn stjórnarformaður segir nú skipta mestu að skapa frið um félagið.
Hluthafar sem réðu yfir 92 prósentum hluta greiddu atkvæði um nýja stjórn á hluthafafundinum í morgun. Þó var fráfarandi stjórn sjálfkjörin fyrir aðeins tæpum fjórum mánuðum. Ástæðan fyrir kosningum nú eru væringar innan félagsins og tengdar hluthöfum. Fráfarandi stjórn rak Eggert Þór Kristófersson forstjóra en sagði Kauphöll að hann hefði óskað eftir því að hætta. Stjórnin þurfti svo að leiðrétta rangfærsluna.
Eggert Þór kom við sögu í máli Vítalíu Lazarevu sem sakaði í vetur þrjá karla um kynferðisofbeldi, þeirra á meðal þáverandi stjórnarformann Festi og einn hluthafa. Í síðasta mánuði sagði Vítalía á Twitter að Eggert Þór hefði verið einn af þeim fáu sem hlustaði á hana. Stjórnarformaðurinn þáverandi gekk úr stjórn í byrjun árs þegar þetta mál komst í hámæli. Rannsókn er nú í höndum lögreglu bæði á kynferðisbrotakærunni og fjárkúgunarkæru mannanna þriggja á hendur Vítalíu og karlmanni sem var viðstaddur.
Lífeyrissjóðir hafa sig sjaldnast í frammi í þeim hlutafélögum sem þeir eiga í. En Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins og Lífeyrissjóður verslunarmanna, sem eiga stærsta og þriðja stærsta hlutinn í Festi, hunsuðu hins vegar alla fráfarandi stjórn á fundinum í dag og greiddu henni ekki eitt einasta atkvæði. Öll atkvæði verslunarmanna voru greidd Hjörleifi Pálssyni stjórnarformanni Sýnar hf. og öll atkvæði LSR voru greidd Sigurlínu Ingvarsdóttur stjórnarformanni Mussila og Solid Clouds.
Sá þriðji sem er nýr í stjórn er Magnús Júlíusson. Hann er fyrrverandi sviðsstjóri hjá Festi og núverandi aðstoðarmaður Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur og viðskiptafélagi Bjarna Ármannssonar sem á í Festi í gegnum félag sitt.
Þau tvö úr fráfarandi stjórn sem náðu kjöri eru Margrét Guðmundsdóttir sem lengi hefur verið í stjórn Festi og Guðjón Reynisson stjórnarformaður. Hann var endurkjörinn formaður í dag og Sigurlína kjörin varaformaður.
„Það sem skiptir mestu máli er að það skapist friður um félagið og nú getum við bara snúið okkur að vinnunni aftur,“ segir Guðjón Reynisson stjórnarformaður Festi.
Voruð þið að búa til auglýsingu, auglýsa eftir nýjum forstjóra?
„Já, og það er auðvitað mjög spennandi að fá nýjan leiðtoga fyrir þetta flotta félag og það verður bara faglegt, opið og gagnsætt ferli,“ segir Sigurlína Ingvarsdóttir.
Hvenær vonastu til að geta gengið frá því?
„Við vonumst eftir því að geta komið út auglýsingu innan nokkurra vikna,“ segir Sigurlína.
Heldurðu að undanfarnir mánuðir hafi skaðað Festi, væringar varðandi tvísaga tilkynningar til Kauphallarinnar og brottför forstjóra og svo önnur mál sem að tengjast bara félaginu óbeint?
„Það er aldrei gott að vera svona mikið í fréttunum. En ég held að þetta hafi ekkert skaðað okkur þannig að þetta sé ekki eitthvað sem við getum lagað bara með okkar góðu vinnu,“ segir Guðjón.