Gangi kaup Síldarvinnslunnar á Vísi í Grindavík eftir, ræður hún yfir rúmum þrettán prósentum af fiskveiðiheimildum þjóðarinnar. Séu kvótaeignir Samherja, Gjögurs og Útgerðarfélags Akureyringa taldar með, ná fiskveiðiheimildir félaga með tengsl við Samherja meira en tuttugu og fimm prósentum af heildarkvótanum.
Fiskistofustjóri segir að stjórnmálamenn þurfi að svara því hvers vegna reglur um tengda aðila eru mun rýmri í sjávarútvegi en í fjármálageiranum.
Heildarfiskveiðikvóti allra fisktegunda á Íslandsmiðum nemur rúmum 609 þúsund þorskígildistonnum. Síldarvinnslan í Neskaupstað á mest af þessum kvóta, eða 10.81%.
Brim og Ísfélag Vestmannaeyja fylgja þétt á eftir, en Samherji Ísland á rúm átta prósent. Vinnslustöðin í Vestmannaeyjum kemur þar á eftir með rúm sjö prósent. Á eftir kemur fjöldinn allur af smærri útgerðum, en engin útgerð, eða tengdar útgerðir, mega eiga meira en 12% af kvótanum.
Við fyrstu sýn kann eignarhald fiskveiðiheimilda að vera býsna dreift, en myndin er flóknari - eða einfaldari - en virðist í fyrstu. Síldarvinnslan á til dæmis Berg Huginn, sem á 0,41% kvótans, og hefur keypt Vísi, sem á 2,14% kvótans. Samtals á því Síldarvinnslan og tengd félög 13,36% af heildarkvótanum eftir kaupin á Vísi. Hún fer því yfir 12% kvótaþakið, og þarf að losa sig við hluta.
Rýmri reglur um tengda aðila í sjávarútvegi
Síldarvinnslan, Vísir og Bergur Huginn eru tengdir aðilar, samkvæmt lögum um fiskveiðistjórnun. En reglur um tengda aðila eru miklu rýmri í sjávarútvegi en í til dæmis fjármálageiranum. Til að útgerðir teljist tengdar, þurfa þær eða eigendur þeirra að eiga meira en 50% hvor í annarri.
Samherji er til dæmis stærsti eigandi Síldarvinnslunnar, með 32,64%, sem er tvöfalt meira en næststærsti eigandinn, Kjálkanes, sem er í eigu Björgólfs Jóhannssonar fyrrverandi forstjóra Samherja og fjölskyldu hans. Kjálkanes er systurfélag Gjögurs, sem á 2,53% kvótans. Samherji, Gjögur og Síldarvinnslan eru þó ekki skráð sem tengdir aðilar hjá Fiskistofu, þótt Þorsteinn Már Baldvinsson, núverandi forstjóri Samherja, sé stjórnarformaður Síldarvinnslunnar.
Samanlagt eiga Síldarvinnslan og félög tengd henni, Gjögur, Samherji og Útgerðarfélag Akureyringa, sem er í eigu Samherja , rúm 25% af heildarkvóta þjóðarinnar, meira en tvöfalt meira en kvótaþakið. En samkvæmt lögunum teljast þau ekki tengdir aðilar.
Stjórnmálanna að breyta reglunum
„Það er alveg skýrt með þessi fimmtíu prósent," segir Ögmundur Haukur Knútsson fiskistofustjóri. „Það er stjórnmálanna að breyta því ef menn vilja, en þetta er mun víðara en við sjáum á fjármálamarkaði og öðrum greinum."
Hvers vegna?
„Ja, nú skaltu spyrja stjórnmálamennina um það," segir Ögmundur. „Það er ekki mitt að segja um hvort það þurfi að herða það, en það þarf að vera ákveðinn skýrleiki í reglunum og gagnsæi, svo það sé hægt að rekja eignatengsl og hafa gagnsæi í þessu. Matvælaráðherra er búinn að setja af stað vinnu vinnuhópa eða nefnda til að skoða sjávarútveginn, og þar á meðal er verið að skoða þessa þætti."