Það er örþrifaráð stjórnvalda, illa ígrundað og vanmat á stöðunni að ætla að leysa mönnunarvanda heilbrigðiskerfisins með því að bjóða starfsmönnum að vinna til 75 ára aldurs. Stjórnvöld séu aðeins að staðfesta þá alvarlegu stöðu sem sé innan hjúkrunar á Íslandi. Þetta segja forsvarsmenn hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða.
Heilbrigðisráðherra hefur nú kynnt áform sín um að breyta lögum þannig að hámarksaldur heilbrigðisstarfsmanna ríkisins hækki í 75 ár - og gildi um þá sem vilji og geti unnið lengur.
Með þessu sé verið meðal annars að mæta mönnunarvanda í opinberri heilbrigðisþjónustu, sérstaklega innan stærstu stéttanna sem eru hjúkrunarfræðingar og sjúkraliðar.
Örþrifaráð en ekki ígrundað val
Varaformaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga segir það skjóta skökku við að þessi áform snúi aðeins að heilbrigðisstarfsfólki og kvennastéttum.
„Við höldum að þetta sé meira örþrifaráð yfirvalda heldur en að þetta sé vel ígrundað, því eins og staðan er núna þá er vilji hjúkrunarfræðinga til þess að starfa lengur en eftir sjötugt er kannski ekki eins mikill og stjórnvöld halda,“ segir Halla Eiríksdóttir, varaformaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.
Hún bætir við að vinnusamband hjúkrunarfræðinga við ríkisvaldið sé ekki mjög jákvætt.
Halla segir uppsagnir vera í kerfinu og að halda það að fullorðnir hjúkrunarfræðingar vilji vinna lengur í erfiðum aðstæðum sé að mati félagsins vanmat á stöðunni.
Stórefast að nálgun ráðherra leiði til árangurs
Sandra B. Franks, formaður Sjúkraliðafélags Íslands, segir félagið hafa reynt að vekja athygli á verkefninu árum saman.
„Við vitum af þessari skortstöðu stéttarinnar og loksins er þetta staðfest af ráðherra með því að nálgast þetta verkefni með þessum hætti en hvort þetta er leið sem verði til árangurs það stórefast ég um,“ segir Sandra.
Hún segist halda að hennar félagsfólki muni finnast ágætt að hafa valkostinn en flestir muni kjósa að hætta á lífeyristökualdri enda starfið afar krefjandi.
„Ég sé það ekki fyrir mér að þarna hópist um störfin þessir sjúkraliðar sem eru þá komnir á áttræðisaldur að fara að sinna veikum ég bara stórefast um það. Þeir kjósi þá jafnvel að hætta fyrr en seinna? já miklu frekar miklu frekar.“