Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari, býst við því að sjá íslenskt lið sem eigi eftir að spila hörku vel á eftir þegar flautað verður til leiks í viðureign Íslands og Ítalíu á EM nú klukkan 16. Leikurinn verður að sjálfsögðu í beinni útsendingu á RÚV.

„Byrja af krafti, fara af krafti inn í þennan leik og gefa þeim ekki tækifæri á að líða vel,“ segir Þorsteinn aðspurður hver leiðin að sigri sé í dag. Ítalir fengu skell í fyrsta leik mótsins þegar þær liðið tapaði 5-1 fyrir Frakklandi og hann segir franska liðið hafa gert mjög svipað og þau hefðu hugsað sér að gera í leiknum í dag. „Frakkar spiluðu mjög direct, voru mikið að hlaupa á bak við þær, mikið að komast í svæðin fyrir aftan bakverðina og teyma þær út og suður úr stöðum.“

Ítalski landsliðsþjálfarinn gerir fimm breytingar á liði sínu frá tapleiknum gegn Frökkum. 

„Þær eru allavega búnar að breyta liðinu sínu mikið þannig það er greinilega einhver skjálfti í þeim. Vonandi bara, spilum við þannig að þeim líði ekkert vel að spila á móti okkur og fá ekki trú á verkefnið og við byrjum af þannig krafti að við gefum þeim ekki neitt tækifæri á einu né neinu.“

Sjálfur gerir Þorsteinn eina breytingu á liðinu frá því í 1-1 jafnteflinu gegn Belgíu á sunnudag, Elísa Viðarsdóttir kemur inn í stað Sif Atladóttur. Hugsunina bak við það segir hann vera að fá ferskar fætur inn í þá stöðu og góðan kraft með Elísu. „Það er ekkert launungarmál að Sif er ekkert sú yngsta þarna þannig að við mátum það að hún hefði gott af því að hvíla aðeins og tækjum bara nýja menn í þessa stöðu.“ En hvernig er andrúmsloftið í íslenska hópnum fyrir þennan mikilvæga leik?

„Tilhlökkun og spenna og bara allir klárir í þetta held ég. Ég held við séum að fara að sjá íslenskt lið sem á eftir að spila hörku vel á eftir.“ 

Viðtalið við Þorstein í heild sinni má sjá í spilaranum hér efst á síðunni. Leikur Íslands og Ítalíu hefst klukkan 16 og verður í beinni útsendingu á RÚV. Upphitun í EM stofunni hefst klukkan 15:15.