Sex eru eftir í baráttunni um að taka við af Boris Johnson sem leiðtogi Íhaldsflokksins og forsætisráðherra Breta. Rishi Sunak, fyrrverandi fjármálaráðherra, og Penny Mordaunt, fyrrverandi varnarmálaráðherra, fengu flest atkvæði í fyrstu umferð í kosningu þingmanna Íhaldsflokksins um nýjan leiðtoga. Þau fengu 88 og 67 atkvæði en 358 eru í þingflokknum. Athygli vekur að af þeim sex sem eru eftir eru fjórar konur og þrjú frambjóðenda eru ekki hvít á hörund.

Liz Truss í þriðja sæti

Liz Truss, utanríkisráðherra, varð í þriðja sæti með 50 atkvæði. Hún nýtur stuðnings helstu aðdáenda Borisar Johnsons, eins og Jacobs Rees-Mogg og Nadine Dorries. 

Kemi Badenoch, ráðherra jafnréttismála, fékk 40 atkvæði. Hún þykir hafa staðið sig vel í umræðum þinginu og vera sköruleg og rökföst. Badenoch er fædd í Nígeríu og er talin til hægriarms Íhaldsflokksins, vill minnka ríkisútgjöld og draga úr skattheimtu. Raunar hafa allir frambjóðendur aðrir en Rishi Sunak lofað skattalækkunum.

Tom Tugendhat fékk 37 atkvæði. Hann er sá eini sem ekki hefur gegnt ráðherra eða aðstoðarráðherraembætti í valdatíð Johnsons. Tugendhat er fyrrverandi liðsforingi í hernum og formaður utanríkismálanefndar þingsins. Tugendhat er talinn standa nær miðju stjórnmálanna en flestir aðrir frambjóðendur.

Suella Braverman fékk 32 atkvæði. Hún er ríkislögmaður, en það er ráðherraembætti í Bretlandi. Braverman var stuðningsmaður Johnsons og sagði ekki af sér embætti þegar flótti brast í ráðherraliðið í síðustu viku.

John Major harðorður um Boris Johnson

John Major, fyrrverandi forsætisráðherra, sagði á ráðstefnu í Westminster í fyrradag að Johnson bæri höfuðábyrgðina á því að lýðræðið væri í hættu í Bretlandi. Hann sagði einnig að margir aðrir ráðherrar og viðhlæjendur Johnsons í þingliðinu væru samábyrgir. Þetta fólk hefði þagað þegar það hefði átt að hefja upp raust sína og þá fyrst tjáð sig þegar þögnin skaðaði þau.

Hættur sem steðja að lýðræðinu

Guðrún Hálfdánardóttir og Þórunn Elísabet Bogadóttir ræddu í Heimsglugganum á Morgunvaktinni Rás 1 við Boga Ágústsson um hættuna sem margir telja að steðji að lýðræðinu í heiminum. Það eru liðnir þeir tímar þegar Francis Fukuyama talaði um enda sögunnar; að frjálslynt, vestrænt lýðræði hlyti að vera framtíðarstjórnarform mannkyns. Í Heimsglugganum heyrðist í fleiri málsmetandi mönnum sem hafa áhyggjur af framtíð lýðræðis: Barack Obama, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, og Håkan Juholt, fyrrverandi leiðtoga sænskra jafnaðarmanna og sendiherra á Íslandi og nú sendiherra í Suður-Afríku.