Glódís Perla Viggósdóttir, landsliðskona í knattspyrnu, segir liðið að sjálfsögðu hafa ætlað að vinna leikinn gegn Ítölum í dag og jafntefli hafi klárlega ekki verið úrslitin sem þær vildu. Liðið á þó enn möguleika á 8-liða úrslitum en síðasti andstæðingurinn eru Frakkar á mánudag.
„Við ætluðum að vinna þennan leik, klárlega ekki úrslitin sem við vildum. Aftur erum við að fá færin í að klára þetta,“ segir Glódís í viðtali strax eftir leik. Að sama skapi segist hún gríðarlega stolt af liðinu sem hafi verið að verjast ótrúlega vel í nánast 90 mínútur og haldið Ítölum frá markinu. „Svekkt að þær fái þetta mark, það breytir aðeins leiknum, þá erum við farin að elta líka. Bara tvö lið sem þurftu að vinna í dag og þetta var svolítið þannig leikur,“ segir Glódís.
„Við hefðum bara þurft að skora eitt til að loka leiknum en svona er þetta, þetta er allt í okkar höndum ennþá. Við þurfum bara að vinna Frakka.“
Karólína Lea Vilhjálmsdóttir skoraði mark Íslands strax á þriðju mínútu eftir langt innkast. Glódís segir markið hafa verið frábært en það hefði verið enn betra markið hefði dugað til sigur. „Ég er gríðarlega svekkt að við fáum þetta mark á okkur. Þetta er allt í okkar höndum og við vitum bara að við þurfum að gera allt í næsta leik og við ætlum bara að vinna Frakka,“ segir Glódís að lokum.
Viðtalið við Glódísi Perlu í heild sinni má sjá í spilaranum hér efst á síðunni. Næsti leikur Íslands á mótinu er gegn Frökkum á mánudag.