Áferðarprjón er með upphleyptu munstri, damaskprjón, kaðlaprjón, perlubrugðningar; bátahálsmál myndar bátalaga form; töfralykkjuaðferð er þegar notaður er hringprjónn með langri í snúru í stað fimm prjóna eða sokkaprjóna. Anna og Guðrún töluðu við Ásdísi Jóelsdóttur og Guðrúnu Hannele Henttinen í Orði af orði á Rás 1, um íðorðasafn í hannyrðum. Þar er ofangreindar skilgreiningar að finna og miklu meira til.
Ásdís er lektor í textíl á menntavísindasviði Háskóla Íslands og Guðrún Hannele Henttinen er textílkennari og rekur garnverslunina Storkinn. Þær eru í íðorðanefnd um hannyrðir og hafa sett saman lista sem er aðgengilegur í íðorðabanka Árnastofnunar.
Þegar hannyrðaorðum er flett upp fást upplýsingar um hvaða flokki þau tilheyra, skýring og enskt heiti. Ásdís og Guðrún Hannele hafa líka þýtt heilu staðlana, til dæmis yfir grófleika garns.
Flokkun á grófleika bands er stöðluð og skilgreiningar og heiti vel þekkt á ensku. „Af því að það voru ekki til staðar íslensk heiti yfir þessar skilgreiningar þá var bara þegar byrjað að nota öll þessi ensku heiti í uppskriftum hérna,“ segir Guðrún Hannele. Þær hafi því hugað að því snemma að finna íslensk heiti yfir grófleika bands og leggja til orðin fisband, fínband, smáband, léttband, grófband og stórband.
Íðorðastarfið er fjölbreytt þrátt fyrir að vera um afmarkað svið. Þær þýða, búa til ný orð og endurvekja einnig gömul orð sem þær finna í gömlum ritum um hannyrðir.
Stuðlaprjón er brugðningur
Aðspurðar nefna þær orðið stuðlaprjón sem dæmi um gamalt íslenskt orð sem þær endurvöktu. „Okkur fannst það bara svo frábært, af því að það er svo lýsandi. Það er orð sem var notað yfir það sem í dag hefur verið kallað brugðningur en mörgum finnst vera svolítið erfitt eða óþjált, brugðning eða brugðningur. Síðan er annað orð sem fleiri kannski þekkja, það er stroff.“
Anna og Guðrún töluðu við Ásdísi og Guðrúnu Hannele í Orði af orði á Rás 1 sunnudaginn 19. júní.