Tveir af stærstu hluthöfum í Festi hf., Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins og Lífeyrissjóður verslunarmanna, ætla að styðja sitthvorn frambjóðandann í stjórnarkjöri í fyrramálið. Þeir eru ekki í hópi núverandi stjórnarmanna. Á hluthafafundi Festi hf. í fyrramálið verður margfeldiskosning að kröfu meðal annars Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Það gæti gert þeim auðveldara að fá sitt fólk kjörið í stjórn en fjórtán eru í framboði.
Festi hf. er eitt af stærstu fyrirtækjum landsins. Það rekur Krónuna, sem er með 26 verslanir, ELKO stærstu raftækjaverslun landsins og N1 eldsneytisstöðvarnar. Heildareignir Festi námu 87 milljörðum í lok mars.
Ekki vitað hvort fjórmenningarnir hafi gefið lögreglu skýrslu
Á aðalfundi félagsins í mars var fimm manna stjórn sjálfkjörin. Sú stjórn lenti svo í vanda í júní þegar hún varð tvísaga um starfslok Eggert Þórs Kristóferssonar forstjóra. Fyrst tilkynnti hún Kauphöllinni að hann hefði óskað eftir að láta af störfum - en þurfti svo tíu dögum síðar að lýsa því yfir að hún hefði átt frumkvæði að starfslokum Eggerts Þórs.
Ástæða þess að Festi hefur verið í opinberri umræðu á árinu er sú að Þórður Már Jóhannesson þáverandi stjórnarformaður fyrirtækisins óskaði eftir að ganga úr stjórn í byrjun janúar, en þá komust hann og þrír aðrar karlar í hámæli í fréttum eftir að Vítalía Lazareva sagði frá meintu kynferðisofbeldi sem þeir, sem hún nafngreindi þó ekki, hefðu beitt hana í sumarbústað. Auk Þórðar Más er einn hinna karlanna Hreggviður Jónsson sem líka á hlut í Festi. Vítalía hefur gefið skýrslu hjá lögreglu um málið. Ekki fengust upplýsingar um hvort karlarnir hefðu verið kallaðir inn til skýrslutöku.
Vítalía sagði á Twitter í júní að Eggert Þór forstjóri hefði verið einn af fáum mönnum sem hefðu hlustað á hana og að hún ætti honum mikið að þakka.
Sigurlína og Hjörleifur með samtals 24% á bak við sig
Þrettán eru í framboði í stjórnarkjörinu sem fer fram á hluthafafundinum í fyrramálið. Öll núverandi stjórn er í framboði.
Tuttugu stærstu hluthafarnir eiga rúmlega 83 prósenta hlut og þar af eiga lífeyrissjóðirnir tæpt 71 prósent.
Einkahlutafélögin fjögur í hópnum eiga tæp sjö prósent. Þórður Már á í Brekku Retail og Hreggviður í Stormtré.
Við kosningu á milli þrettán manns er hætt við að atkvæðin dreifist víða og þá jafnframt að lífeyrissjóðirnir sem yfirleitt halda sig til baka geti ekki gengið að því vísu að ná fulltrúum inn.
Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins, LSR, stærsti hluthafinn í Festi fór því fram á margfeldiskosningu ásamt fleirum. Það þýðir að hluthafi þarf ekki að kjósa fimm manns heldur getur notað atkvæðisþunga sinn á einn frambjóðanda eða fleiri.
LSR mun styðja Sigurlínu Ingvarsdóttur í stjórn. Sömuleiðis mun þriðji stærsti hluthafinn, Lífeyrissjóður verslunarmanna, styðja Hjörleif Pálsson til stjórnarsetu. Einhverjir lífeyrissjóðir ætla sér að að styðja núverandi stjórn.