„Eitt sumarið var ég hýddur nánast daglega fyrir það eitt að vera til,“ segir Árni H. Kristjánsson, sagnfræðingur. Honum var komið fyrir á vöggustofu þegar hann var ungbarn vegna fátæktar á heimili hans. Mörg þeirra barna sem voru á vöggustofum þurftu að flækjast á milli stofnana öll bernskuárin þar sem þau bjuggu gjarnan við slæmar aðstæður, jafnvel gróft ofbeldi.
Vöggustofur voru starfræktar á Íslandi á árunum 1949-1973. Þar voru börn einstæðra, fátækra og veikra vistuð og andlegum þörfum þeirra lítt sinnt. Starfsemin komst í umræðuna í júlí í fyrra þegar fimm menn sem vistaðir voru á vöggustofum gengu á fund borgarstjóra og óskuðu eftir rannsókn. Þeirra á meðal var Árni H. Kristjánsson. Hann ræddi við Viktoríu Hermannsdóttur um reynsluna og þá rannsókn sem farið hefur fram síðustu misseri, sem leitt hefur í ljós margt misfagurt.
„Þetta kom þannig til að ég vissi að ég og systkini mín vorum vistuð þarna og ég vissi að þessu hafði fylgt sársauki,“ segir Árni.
Árið 1993 vakti Viðar Eggertsson athygli á málinu í útvarpsþættinum Eins og dýr í búri. Þátturinn hefur margoft verið endurfluttur og enn er hægt er að hlýða á hann hér í spilara RÚV. Í þættinum fjallar Viðar meðal annars um eigin reynslu af dvöl á vöggustofu þegar hann og tvíburasystir hans komu á Vöggustofuna Hlíðarenda aðeins 17 daga gömul. Þau voru vistuð þar þangað til að þau voru tveggja og hálfs árs.