Fyrsta ljósmyndin úr James Webb-geimsjónaukanum var birt í gær. Ljósmyndin sýnir ógrynni af stjörnuþokum í allt að 4,6 milljarða ljósára fjarlægð frá jörðu. Hún markar vatnaskil í rannsóknum á vetrarbrautum.
Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, afhjúpaði ljósmyndina við hátíðlega athöfn í Hvíta húsinu í gær. Bill Nelson, stjórnandi hjá NASA, Geimvísindastofnun Bandaríkjanna, sagði að þegar fólk skoðaði myndina væri það að horfa meira en 13 milljarða ára aftur í tímann. Von er á fleiri myndum úr sjónaukanum í dag, en hægt er að fylgjast með útsendingu Nasa hér að neðan. Búist er við að fleiri myndir verði birtar um klukkan 14:30.
„Frá þeirra sjónarhóli er jörðin að verða til“
Sævar Helgi Bragason, jarðfræðingur, segir að myndirnar séu byltingarkenndar.
„Ímyndaðu þér að þú sért að horfa á svæði á himninum, ef þú heldur á sandkorni eða títuprjónshaus í útréttri hendi, þá er stærðin á myndinni slík,“ segir Sævar Helgi Bragason.
Hann segir að horft sé á pínulítinn punkt á himninum og á þessari mynd séu nokkrar þúsundir vetrarbrauta, sem hver og ein inniheldur hundrað milljarða stjarna að meðaltali.
„Við erum að horfa á þetta eins og þetta leit út fyrir kannski allt að 13,5 milljörðum ára. Í forgrunni, þessir ljóshvítu flekkir, þær eru í 4,6 milljarða ljósára fjarlægð. Þannig að frá þeirra sjónarhóli er jörðin að verða til.“