Á annað hundrað kettir, sem eru í umsjá samtakanna Villikettir, leita nú að nýju heimili. Formaður samtakanna segir að kórónuveirufaraldurinn hafi ekki verið köttum hliðhollur, fólk losi sig unnvörpum við ketti eftir að lífið komst í samt horf.
Í fjölbýlishúsi í Hafnarfirði er sannkölluð kisuparadís en þar búa 12 kettlingar með mömmum sínum tveimur. Þeir eru á vegum samtakanna Villikettir og Arndís Björg Sigurgeirsdóttir formaður Villikatta segir að þeir hafi verið teknir af heimili þar sem eigandinn þurfti aðstoð til að annast um kettina.
En þetta eru ekki einu kettirnir sem eru í umsjá Villikatta. „Við erum með hátt í 60 kettlinga núna sem bíða eftir því að fá heimili,“ segir Arndís. „Ætli við séum ekki með um 60-70 fullorðna líka, frá ársgömlum og upp úr.“
Kettirnir koma víða að. Sumir eru villikettir sem hafa aldrei verið í samskiptum við fólk og þeir fara aftur til síns heima eftir að sjálfboðaliðar Villikatta hafa ormahreinsað þá og gelt. Í sumum tilvikum biðja sveitarfélög samtökin um aðstoð vegna katta sem ekki njóta viðeigandi umönnunar.
Og svo eru það vergangskettir sem áður hafa átt heimili en ýmist týnst, eða verið vísað á dyr. Arndís segir ekki óalgengt að ekið sé með ketti í önnur sveitarfélög og þeir skildir þar eftir svo þeir rati ekki heim til sín og þessi hópur fari stækkandi. „Því miður,“ segir Arndís.
„Við tökum að meðaltali 600 ketti inn á ári. Hér áður voru það um 200 kettir sem voru vergangskisur og 400 villikisur. En þetta hefur alveg snúist við og mér sýnist að þetta árið verði 500 vergangs- og 100 villikisur.“
Hvers vegna heldurðu að vergangsköttum hafi fjölgað? „Covid var okkur ekki hliðhollt, hvorki í veikindum né kisum því að fólk var að taka að sér kisur af því það þurfti að vera heima, vinna heima eða eitthvað álíka og kisur eru náttúrulega frábær félagsskapur. Svo leið þetta tímabil, fólk komst til útlanda og hreinlega setti frá sér kettina. Setti þá út. Við erum að finna ketti á Suðurnesjum sem líklega komu héðan úr bænum.“