Þorsteinn Halldórsson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins, og aðstoðarþjálfarinn, Ásmundur Haraldsson, eru ekki þeir einu sem sjá um að búa liðið undir að mæta andstæðingum sínum á EM í fótbolta á Englandi. RÚV ræddi við Ólaf Pétursson, markmannsþjálfara, og Guðrúnu Sturlaugsdóttur, styrktarþjálfara.

„Ég sé um fyrstu korter, tuttugu mínúturnar á æfingu; kem þeim í stand fyrir æfinguna,“ segir Guðrún um hlutverk sitt í liðinu. „Bara svona yfirhöfuð fitnessið.“

Hvernig veistu hvað er hæfilegt æfingamagn fyrir hverja og eina?

„Það er frábær spurning því þetta getur verið mjög flókið í íþrótt eins og fótbolta,“ segir Guðrún. „Það er mjög einstaklingsbundið hvað hver þarf. Það fer eftir aldri, einstaklingi og meiðslasögu.“

Vítaskyttan breytti um horn

„Ég sé fyrst og fremst um markmennina íslensku. Upphitun og æfingar inni á æfingum,“ segir Ólafur um sitt hlutverk. „Svo klippi ég öll föst leikatriði, sóknarlega og varnarlega hjá liðinu sem við erum að mæta. Ég fer yfir það á fundi daginn fyrir leik hvernig þau stilla upp í hornum og aukaspyrnum, hættulegustu leikmenn og annað.“

Hægt er að skoða upptökur af skotum leikmanna fyrir leiki, til dæmis í vítum, en það hjálpar ekki alltaf. „Til dæmis í gær vorum við búin að skoða öll vítin þeirra og fyrirliðinn tók ekki víti. Sú sem tók vítið, við vorum búin að skoða hana, hún breytti um horn. Svo er þetta bara leiklestur þegar að því kemur,“ segir Ólafur.