Komið er fram á mitt sumar en virkilega líflegt í íslensku útgáfunni eins og heyrist í Undiröldu kvöldsins þar sem við fáum nýtt efni frá Bubba, Flott, Fnnr, Hatara, Blóðmör, Funk Harmony Park, Karli orgeltríói ásamt Sigríði Beinteinsdóttur, Yl, Oddi, Poppvélinni, Demó, Ástarpungunum ásamt Sigló röddum og Milkhouse.


Bubbi – Sunnudagur (með laugardagskvöld í fanginu)

Bubbi Morthens sendi á fimmtudaginn frá sér nýtt lag sem heitir Sunnudagur (með laugardagskvöld í fanginu). Lagið segir hann gefa tóninn fyrir það sem koma skal frá Bubba á næstu mánuðum. Upptökustjórn var í höndum Arnars Guðjónssonar, Hrafn Thoroddsen spilar á hljómborð og Arnar Guðjónsson á trommur, rafgítar og bassa auk þess að syngja bakraddir.


FLOTT – Boltinn hjá mér

Hljómsveitin FLOTT hefur sent frá sér nýtt lag sem heitir Boltinn hjá mér. Sveitin hefur vakið töluverða athygli undanfarið ár fyrir slagara sína, Mér er drull og Ef þú hugsar eins og ég. Boltinn hjá mér er um kómískar hliðar stefnumótalífsins og að sögn sveitarinnar keyrir lagið á mikilli orku og gleði.


FNNR – Lokkar hjartað

FNNR hefur sent frá sér tvöfalda smáskífu með lögunum Lokkar hjartað og Er ég kominn heim. Á bak við nafnið FNNR stendur Kári Fannar Jónsson sem hefur unnið mikið bakvið tjöldin sem upptökustjóri og lagahöfundur seinustu ár. Lagið Lokkar hjartað er um að falla alltaf í sömu ástargildruna þar sem hinn aðilinn leikur sér að hjarta þínu.


Hatari – Dansið eða deyið

BDSM-hljómsveit barnanna, Hatari, hefur sent frá sér nýjan vinalegan fjölskyldusmell að eigin sögn. Slagarinn heitir Dansið eða deyið og á án nokkurs vafa eftir að rífa stemmninguna í gang í leikskólum landsins eftir sumarfrí.


Blóðmör ásamt Óttari Proppé – Málmur og gler

Þungarokkshljómsveitin Blóðmör hefur verið áberandi síðan hún vann Músiktilraunir fyrir nokkrum árum. Nú hefur hún sent frá sér lagið Málmur og gler þar sem þeir fá Ham-liðann og fyrrverandi ráðherrann Óttar Proppé til að taka með sér lagið.


Funk Harmony Park – This is my war

Hljómsveitin Funk Harmony Park er skipuð þeim Inga Þór Eyjólfssyni og Valtý Birni Thors. Í byrjun júlí sendu þeir frá sér plötuna Apocatastasis sem er fyrsta breiðskífa dúettsins.


Karl orgeltríó, Sigríður Beinteinsdóttir – Reykjavík brennur

Reykjavík brennur er nýtt kraftmikið lag frá Siggu Beinteins og Karli orgeltríói sem er, sem fyrr, skipað þeim Ólafi Hólm, Ásgeiri Jóni Ásgeirssyni og Karli Olgeirssyni. Lagið segja þau að sé hressandi sumarlag undir áhrifum frá níunda áratugnum.


Ylur – Lífsbókin

Dúettinn Ylur, skipaður Hafdísi Þorbörnsdóttur og Birni Hildi Reynissyni, hefur sent frá sér sína útgáfu af lagi Bergþóru Árnadóttur, Lífsbókinni, við texta Laufeyjar Jakobsdóttur. Lagið er fyrsta útgáfa þeirra og er til minningar um móður Hafdísar sem lést úr krabbameini 2019.


Oddur – Hvað þú fílar

Tónlistarmaðurinn Oddur Bjarki Hafstein er höfundur lagsins Hvað þú fílar en hann fékk smá hjálp frá Jóhannesi Ágústi Sigurjónssyni sem gerði taktinn. Lagið segir Oddur vera húslag með djúpum bassa og smá poppinnblæstri.


Poppvélin – Bærinn minn

Poppvélin hefur sent frá sér lagið Bærinn minn, sem er lag Hjarta Hafnarfjarðar í ár. Með þeim í laginu er Heiðar Örn Kristjánsson sem er oftast kenndur við Hafnarfjarðarsveitirnar Botnleðju og Pollapönk. Heiðar syngur dúett á móti Sólveigu Ásgeirsdóttur, söngkonu hljómsveitarinnar, en með þeim í sveitinni eru Örlygur Smári og Valgeir Magnússon.


Demo – Neistar

Hljómsveitin Demo kemur úr Reykjanesbæ og sendi nýlega frá sér þröngskífuna Neistar, sem er þeirra fyrsta. Að sögn Demo-manna spila þeir ostapopp ættað úr Tónlistarskóla Reykjanesbæjar.


Ástarpungarnir og Sigló raddir – Alla nóttina

Lag Síldarævintýris á Siglufirði er Alla nóttina með Ástarpungunum og Sigló röddum. Lagið var tekið upp í húsnæði þeirra í Ástarpungunum og þeir sjá um undirleik í laginu. Síðan komu fjöldamargir að söng lagsins áður en það var sent suður á bóginn, til Gran Canaria, þar sem Gunnar Smári Helgason tók það í sínar hendur og sá um eftirvinnslu.


Milkhouse - Komdu út

Hafnfirska indísveitin Milkhouse fagnaði útgáfu nýrrar breiðskífu á föstudaginn var en platan, Milkhouse, er jafnframt þriðja breiðskífa sveitarinnar. Um er að ræða sólbakaða sumarplötu sem einkennist jöfnum höndum af litríkum lagasmíðum og vönduðum útsetningum fyrir blásturssveit.