Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, er með sömu 11 leikmenn í byrjunarliðinu fyrir fyrsta leik Íslands á EM og hann var með í æfingaleik liðsins gegn Póllandi fyrir rúmri viku. Ísland mætir Belgíu í fyrsta leik liðsins á Evrópumótinu í dag klukkan 16.
Þorsteinn segir andann í hópnum vera góðan á leikdegi og vonar að spennustigið sé rétt stillt. „Leikmenn virka bara ferskir og klárir í þetta og bara tilhlökkun í hópnum að þetta sé að byrja.“
Uppleg Þorsteins í leiknum er að pressa belgíska liðið hátt ef möguleiki er á og vonast til að vinna boltann á góðum stöðum. Leikmennirnir 11 sem byrja leikinn eru þeir sömu og byrjuðu gegn Póllandi fyrir rúmri viku en það er í fyrsta sinn á landsliðsþjálfaraferlinum sem Þorsteinn stillir upp sama byrjunarliði tvo leiki í röð. „Það tók 15 leiki að finna það,“ segir Þorsteinn glettinn. Hann segist hafa verið sáttur með það sem hann sá í leiknum gegn Póllandi en hefur samt sem áður fullt af möguleikum til að gera breytingar á meðan leikurinn er í gangi.
„Mér fannst fyrir Póllandsleikinn að þetta yrði líklegt byrjunarlið og ég vildi „testa“ það hvort þetta myndi ganga og ég er bara bjartsýnn á það að það gangi og hef trú á þessu. En svo gerir maður náttúrulega alltaf einhverja vitleysu sko.“
Hann segir það alltaf vera einhverskonar skák sem fer í gang milli þjálfaranna en hann vonast til þess að Belgarnir muni reyna að spila út frá marki. „Þær hafa ekki verið mikið í löngum boltum og ég vonast til þess að þær haldi því áfram og reyni að spila á milli lína og við reynum að vinna boltann þar.“ Hann bætir því við að belgíska liðið sé virkilega gott í fótbolta, sé öruggt á boltanum, líði vel með hann og hafi alltaf trú á því að þær geti spilað sig út úr vandræðum.
Viðtalið við Þorstein í heild sinni má sjá í spilaranum efst á síðunni. Leikur Íslands og Belgíu hefst klukkan 16 og verður í beinni útsendingu á RÚV. Upphitun í EM stofunni hefst klukkan 15:15.