Mikil stemning er í Manchester á Englandi þar sem leikur Íslands og Belgíu í riðlakeppni EM kvenna í fótbolta fer fram í dag. Fjöldi Íslendinga er samankominn á aðdáendasvæði í miðborginni þar sem hitað er upp fyrir leikinn.
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, er á meðal þeirra sem mætt eru til Manchester að fylgjast með landsliðinu.
„Ég er ótrúlega stolt af því að tilheyra samfélagi sem elur af sér svona flottar stelpur og stráka. Ég er handviss um að við eigum eftir að vinna þennna leik,“ sagði Katrín þegar hún ávarpaði Íslendingana á svæðinu.
Hún sagðist ekki síst stolt af því að Ísland væri að vinna aðdáendakeppnina. „Við erum þrisvar sinnum fleiri en Belgarnir.“
Mæta í alvörunni þjóðarleiðtogar á landsleik hjá stelpunum?
Katrín var í viðtali hjá BBC en fréttamaðurinn þar virtist hissa á að þjóðarleiðtoginn mæti á landsleik hjá kvennalandsliðinu. „Að sjálfsögðu gerum við það,“ sagði Katrín við fögnuð áhorfenda.
Honum fannst einnig skrítið að enginn Íslendinganna kippti sér upp við að hafa forsætisráðherrann á svæðinu. „Það er hluti af því að vera Íslendingur, það er ekkert mál að sjá forsætisráðherra hér og þar.“
Myndskeiðið tók Ragnar Santos.

RÚV – Björn Malmquist